Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:03:14 (6896)

2002-04-04 11:03:14# 127. lþ. 109.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil segja aðeins fáein orð um atkvæðagreiðsluna. Ég tel ekki forsendur til að taka þetta frv. til atkvæðagreiðslu, einfaldlega vegna þess að of margir þættir málsins eru enn óupplýstir. Ég vísa þar t.d. í staðhæfingar sem komu fram hjá stjórnarformanni Reyðaráls í fjölmiðlum nú nýlega um að eitt helsta ágreiningsefnið í samningaviðræðunum hefði verið tryggingarupphæð, 800 millj. dollarar, 80 milljarðar íslenskra króna, án þess að því væri svarað hver ætti að axla þá ábyrgð. Lýtur hún að Íslendingum, íslenska ríkinu, íslenskum fjárfestum, íslenskum lífeyrissjóðum sem kæmu til með að fjárfesta í verkefninu eða lýtur hún að Norsk Hydro? Er það tilboð þeirra gagnvart Íslendingum að þeir ætli að axla þessa ábyrgð gegn því að þeir fái meirihlutaeign í fyrirtæki með því að láta minnihlutafjármagn af hendi? Hvað býr að baki þessum upplýsingum og staðhæfingum sem komu fram hjá stjórnarformanni Reyðaráls? Ég spurði eftir þessu (Forseti hringir.) í efh.- og viðskn. Alþingis í morgun og það voru engin svör. Getum við gengið til atkvæða um þetta frv. án þess að svo veigamiklir þættir málsins séu upplýstir? Ég held ekki.