Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:13:21 (6905)

2002-04-04 11:13:21# 127. lþ. 109.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:13]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég greiði atkvæði gegn þessu frv. Ég er sannfærður um að það stríðir gegn þjóðarhag og dregur úr möguleikum okkar til efnahagsframfara. Verið er að greiða atkvæði um heimild til stórvirkjunar sem á að sjá einum orkukaupanda fyrir orku. Sá kaupandi er ekki í sjónmáli. Þrátt fyrir það fullyrða talsmenn ríkisstjórnarinnar með hæstv. iðnrh. fremstan í flokki og formann iðnn. að hér sé á ferðinni verkefni sem gefi bullandi arðsemi. Þetta er orðalagið. Um arðsemina efast ég og tel að svo verði reyndar ekki. Fyrra orðið er vel við hæfi.