Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:14:17 (6906)

2002-04-04 11:14:17# 127. lþ. 109.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:14]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég greiði atkvæði gegn þessari grein og frv. Kárahnjúkavirkjun mun valda margfalt meiri náttúruspjöllum en nokkur einstök framkvæmd á Íslandi af manna völdum hefur gert til þessa. Virkjunin krefst flutnings á jökulám á milli vatnasvæða. Virkjunin krefst þess að gerð verði gríðarlega stór uppistöðulón sem munu svo fyllast á ákveðnum tíma innan nokkurra hundruða ára sem þýðir að þessi virkjun er ekki sjálfbær. Við erum að níðast á landinu okkar með því sem hér er verið að leggja til.

Virðulegi forseti. Hvert ársstarf í þessum verkefnum er talið að kosti um 400 millj. kr. En af hálfu hins opinbera er einungis varið um 700 millj. kr. til þróunar- og markaðsstarfs í ferðaþjónustu, þess atvinnuvegar sem vex hraðast á Íslandi. Það er eins og tvö ársstörf munu kosta í þessum heildarframkvæmdum. Sjái nú hver hvaða vit er í þessari forgangsröðun.