Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:04:10 (6925)

2002-04-04 12:04:10# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:04]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé lítið hægt að læra af síðasta ræðumanni um það sem kallast lágmarkskurteisi eða hvernig rétt skuli með fara hér úr ræðustól.

Ég vil andmæla því og fordæma að hv. þm., sem stundum er forseti í þessum ágæta stól hér fyrir aftan mig, skuli fara rangt með og segja ósatt úr þessum ræðustól. Ég sagði aldrei að ég hefði verið að kalla eftir sameiginlegri yfirlýsingu olíufélaganna. Það segir hv. þm. hreinlega ósatt. Hann fer með rangt mál og fleipur hér úr ræðustól.

Hitt er annað mál að olíufélögin eða fulltrúar þeirra lýstu því yfir á fundinum að þeir vildu leggja sitt af mörkum til þess að hin svokölluðu rauðu strik héldu. Þeir vildu þó ekki ganga lengra en svo að lýsa því einungis yfir að óbreytt verð á bensíni mundi aðeins gilda út aprílmánuð. Þeir vildu ekki lýsa því yfir að verð á bensíni yrði óbreytt, a.m.k. fram yfir þessu rauðu strik. (Gripið fram í.) Ég hef fyllstu ástæðu til þess að ætla, herra forseti, að olíufélögin reyni, ef ekki kemur fram þessi verðlækkun á bensíni, með einum eða öðrum hætti að ná sér í þá hækkun sem varð á heimsmarkaðsverði núna. Þau sitja að vísu á sér með að hækka bensínið nú en munu reyna að ná í hana í sumar.

Herra forseti. Hv. þm. hleypur hér úr salnum þannig að ég hef ekki meira við hann að segja en ég fordæmi hvernig hv. þm. fer hér hvað eftir annað með rangt mál úr þessum ræðustól. Ég stend auðvitað við að fyllsta ástæða er til að skoða fákeppni og samþjöppun hjá olíufélögunum betur en gert hefur verið.