Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:17:11 (6928)

2002-04-04 12:17:11# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni að mér fyndist þetta koma til álita til að ná þeim markmiðum sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lýst samþykki við. Þetta frv. er fyrst og fremst hugsað sem sveiflujafnandi aðgerð og ýmsir áhættuþættir sem m.a. hafa komið fram í máli hæstv. fjmrh. fara saman við þau sjónarmið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsir. Mér finnst þetta koma til álita.

Ég hef hins vegar vakið athygli á því að ég er kröfugerðarmaður á hendur ríkissjóðs og vil að við rekum hér myndarlegt velferðarkerfi. Ég vek athygli á því að hér yrði um að ræða 100 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð. Ég hef einnig vakið athygli á því að bensínskatturinn er umhverfisvænn skattur í sjálfu sér og ekki óeðlileg eða ósanngjörn skattheimta. Að ýmsu er því að hyggja. Já, mér finnst koma til álita að styðja þetta til að ná þeim meginmarkmiðum sem koma fram í frv. En ég vek engu að síður athygli á þessum þáttum.

Síðan um samráðið: Ég er andvígur því að setja undir sama hattinn allt sem heitir samráð. Annað orð um samráð er samvinna. Mér finnst það enginn glæpur á markaði, hvort sem olíufélög, bankar eða aðrir aðilar á markaði eiga í hlut, að þau hafi í sumum tilvikum með sér samráð og samvinnu. Mér finnst það ekki óæskilegt. Þetta nýja viðskiptasiðferði sem er að ryðja öðru og gamalgrónu siðferði og heilbrigðri skynsemi til hliðar er nokkuð sem ég skrifa ekki upp á.