Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:22:44 (6931)

2002-04-04 12:22:44# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sat hluta af fundum efh.- og viðskn. þegar þetta mál var til umfjöllunar. Ég rita undir nál. um málið með fyrirvara og ætla aðeins að gera grein fyrir nokkrum þáttum í því sambandi til viðbótar því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson, fastafulltrúi okkar í efh.- og viðskn., hefur hér gert grein fyrir.

Í fyrsta lagi er það augljóst, og það lýsir sér nú í samstöðu um þetta frv., að menn eru af vilja gerðir til þess að leggja lið í baráttunni við að ná niður verðbólgu og koma böndum á efnahagsmál og hagstjórn. Það er svo sannarlega þörf á. Það er ástæða til að rifja það upp í þessari umræðu hvernig horfur voru og út af fyrir sig eru enn tvísýnar. En hér fyrir fáeinum mánuðum stóðu menn frammi fyrir, í fyrsta skipti í meira en áratug, um 10% verðbólgu mældri á ársgrundvelli. Verðbólga var á milli 8 og 10% mæld á ársgrundvelli nokkra mánuði í röð. Mörg fleiri einkenni um jafnvægisleysi í efnahagslífinu og hagstjórninni hafa verið og eru mörg enn uppi.

Þess vegna var það mjög virðingarvert framtak sem verkalýðshreyfingin sérstaklega hefur beitt sér fyrir, að reyna að berjast í þessari orrustu við verðbólguna og jafnvægisleysið og þurfti m.a. sérstakan þrýsting utan að til þess að fá hæstv. ríkisstjórn til þess að draga til baka eða breyta áformum sem hún hafði svo seint sem í desember verið að troða hér í gegn með afgreiðslu fjárlagafrv. Sumpart hefur verið fallið frá slíkum áformum, en öðrum frestað. En að sjálfsögðu þarf að huga að því hvaða áhrif það síðan aftur hefur, t.d. það að draga úr áður áformuðum tekjum Ríkisútvarpsins sem aftur hrekur þá stofnun til niðurskurðar, veldur því að hún getur ekki gert upp skuldbindingar sínar við aðra aðila eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands o.s.frv.

Öðru er að sjálfsögðu einboðið að fagna, þ.e. að ríkisstjórnin var vegna þessa þrýstings sem ástandið í verðbólgumálunum skapaði, hrakin til að draga til baka eða lækka áður áformaðar hækkanir á ýmsum gjöldum, komugjöldum, skólagjöldum og öðru slíku.

Herra forseti. Hitt er svo jafnljóst að öll viðbrögð manna í þessu sambandi þurfa að vera trúverðug. Það hættulegasta í þessu er ef aðgerðirnar hafa á sér yfirbragð verkjalyfjatöku, að þetta sé svona magnyl við hausverknum sem dugi nokkra klukkutíma og búið. Það sem ég leyfi mér að gagnrýna við framgöngu ríkisstjórnarinnar almennt er að mjög óljós svör hafa komið varðandi það hversu varanlegar ýmsar breytingar eða aðgerðir verða sem ríkisstjórnin hefur eftir atvikum verið knúin til að fara í. Verður fallið til frambúðar frá því að hækka skólagjöld og komugjöld á heilbrigðisstofnanir eins og til stóð og horfið frá þeirri stefnu að velta sífellt auknum álögum yfir á sjúklinga og notendur? Eða er þarna bara verið að slá á frest hækkunum og í raun grundvallarbreytingum á fyrirkomulagi þessara mála sem ríkisstjórnin er alltaf að nudda við að koma hér á? Er verið að draga úr þeirri jöfnun sem fólgin er í greiðslum gegnum sameiginlegan sjóð og færa meira og meira af kostnaðinum yfir á notendur þannig að smátt og smátt breyti þetta velferðarþjónustukerfi okkar um eðli og hætti að vera samábyrgt, almennt og kostað af sameiginlegum sjóðum í grunninn og verði í sífellt meira mæli greitt af þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og þá jafnvel að verulegu leyti án tillits til efnahagslegra aðstæðna þeirra? Og allir vita hvaða afleiðingar það hefur.

Nei, herra forseti, það er fullkomlega eðlilegt að hér sé spurt um þessa þætti og þá ekki síst þá sem lúta að trúverðugleika málanna því að auðvitað væri mönnum lítill greiði gerður með því þó að menn næðu að smeygja verðlaginu að nafninu til með einhverjum æfingum inn fyrir viðmiðunarmörkin í maí nk. ef svo rýkur allt á fulla ferð aftur. Þá halda að vísu kannski kjarasamningar en þeir sem fyrir verðhækkununum verða, þolendur verðbólgunnar, yrðu þá litlu nær ef þetta reyndust hafa verið magnyltöflur sem entust mjög illa.

Það er líka mikilvægt að huga að því hvar borið er niður, að svo miklu leyti sem aðgerðir sem stjórnvöld beita sér fyrir eða eru þátttakendur í hafa útgjaldaáhrif. Það ætla ég kannski ekki síst að nefna í þessari stuttu ræðu minni, herra forseti: Hvar er þá verið að bera niður? Að því þarf að huga mjög vel. Er endilega borið er niður þar sem skynsamlegast og réttlátast væri að gera það ef menn eru bara að hugsa um hvað komi hagstæðast út fyrir vísitölumælingar? Það er eðlilega mjög freistandi fyrir menn að grípa inn í sambandi við bensínið eins og núna stendur á, af því það er að hækka. Þar eru sýnileg hækkunartilefni. Og með því að ríkið leggi þarna eitthvað af mörkum og dragi úr skattlagningu sinni á bensíni þá er hægt að draga úr þessum hækkunum eða fresta þeim tímabundið.

En þetta kostar peninga, einhverjar 80 millj., 100 millj., segjum við, úr ríkissjóði. Þá er mönnum skylt á hverjum tíma að spyrja: Gott og vel, ef við erum hér stödd frammi fyrir aðstæðum þar sem á dagskrá er að kosta til 100 millj. kr. í skertum skatttekjum eða auknum útgjöldum ríkisins, hvar er þá réttast að bera niður, og ekki bara með hliðsjón af vísitöluáhrifum heldur líka því að aðgerðirnar komi til góða þeim sem mest eru þurfandi? Hvaða vísitöluáhrif hefði t.d. 100 millj. kr. lækkun á skilgreindum útgjöldum barnafjölskyldna í landinu, jafnvel þó að vísitöluáhrifin væru eitthvað minni, ef menn yrðu nú sammála um að það væri ákaflega góð aðgerð til þess að koma til móts við þarfir þessa hóps? Þá mundi að vísu bensín hækka eitthvað eða verða eitthvað dýrara en ella. En aðrir útgjaldaþættir heimilanna í landinu lækka á móti.

Herra forseti. Þetta finnst mér að verði að nefna hér því að annars eru menn svona frekar meðvitundarlitlir í þessum gamla leik, má segja upp að vissu marki, að reyna að hafa hér áhrif á vísitöluna vísitölunnar vegna og þess sem á henni hangir, sem að vísu er ekkert lítið í þessu tilviki, þ.e. kjarasamningarnir sjálfir.

[12:30]

Auðvitað þarf líka að huga að fleiri þáttum, og hér nefndi hv. þm. Ögmundur Jónasson umhverfishliðina. Staðreyndin er sú að jarðefnaeldsneyti er ekki mikið skattlagt á Íslandi, það er minna skattlagt en í mörgum af nágrannalöndunum. Ég hygg að t.d. bensín sé þó nokkuð dýrara í sjálfu olíulandinu Noregi en á Íslandi. Væntanlega er það ekki flutningskostnaður eða annað sem skýrir þann mun heldur fyrst og fremst að norska ríkið gengur lengra í skattheimtu, og svipað hygg ég að sé upp á teningnum í Svíþjóð og jafnvel Danmörku.

Rekstur venjulegs heimilisbíls, við getum sagt fyrsta bílsins í hverri fjölskyldu, er náttúrlega hluti af daglegum veruleika langstærsts hluta fjölskyldna í landinu, og það er staðreynd sem við okkur blasir. Við þurfum auðvitað að taka mið af að þarna er um að ræða útgjöld sem koma við mjög marga. En það á að spyrja og velta fyrir sér: Hver eru efnisatriði málsins og er það nákvæmlega þarna sem við viljum bera niður? Ég nefni t.d. aftur barnavörur eða útgjöld barnafjölskyldna. Ég held að flestir séu sammála um að það væri aðgerð sem margt mælti með.

Menn hafa aðeins rætt um horfurnar í þessu máli og hvaða líkur séu á því að þessar aðgerðir komi að tilskildu gagni, dugi, og hvort þess megi vænta að bensínverðið lækki síðan í sumar þannig að þó að lækkun gjaldsins gangi til baka í lok júní verði það í lagi vegna þess að þá verði heimsmarkaðsverð á bensíni komið á niðurleið. Að vísu þarf það þá að lækka nokkru fyrr því að eins og við þekkjum er ákveðin tímatöf í þessu kerfi. Ef dýrir farmar berast til landsins í mánuðunum apríl og maí mun bensínverðið að sjálfsögðu ekki lækka fyrr en í júlí, ágúst, ef að líkum lætur. Þeirrar tilhneigingar hefur gætt, að ýmsum finnst, að tregðan hafi verið meira í aðra áttina, heimsmarkaðsverðinu sé illa fylgt niður á við en síður standi í mönnum að hækka verðið hér þegar heimsmarkaðsverðið er á uppleið.

Menn hafa jafnframt nefnt hina árstíðabundnu sveiflu sem á sér ósköp einfaldar skýringar, að orka, olía og olíuvörur til húshitunar, eru náttúrlega meira keyptar og meira notaðar yfir vetrartímann á Vesturlöndum og hér á norðurhvelinu. Þar er um svo stóran notanda að ræða að hann hefur áhrif á árssveifluna í notkun og verði þessarar vöru, meira að segja þannig að það er algjörlega merkjanlegt ef kaldir vetur ganga yfir meginlönd Norður-Ameríku og Evrópu. Þá er þessi notkun meiri af skiljanlegum ástæðum og verðið hækkar, og lækkar svo gjarnan yfir sumarmánuðina vegna þess að þessi húshitunarþáttur dettur út og vegna þess að atvinnulífið er oft í meiri hægagangi yfir sumarmánuðina vegna sumarleyfa o.s.frv. Að vísu kemur þá á móti aukin notkun einstaklinga.

Vandinn er sá, herra forseti, að það er eiginlega ekkert sem bendir til þess að tilefni sé til bjartsýni í þessum efnum núna. Hinar almennu aðstæður og tiltrú manna á því að olíuframleiðsluríkin muni skila framleiðslunni inn á markað ræður miklu meiru en þessi árstíðabundna sveifla. Menn hafa frekar áhyggjur af að dreifingin truflist af styrjaldarátökum eða því að þau öfl nái undirtökunum sem vilja takmarka framleiðsluna svo mjög að hægt sé að spila á heimsmarkaðsverðið og það rjúki upp.

Fréttirnar frá Miðausturlöndum eru skelfilegri en nokkru sinni fyrr. Við erum að vísu að tala núna í fréttatíma Ríkisútvarpsins, herra forseti, en ég náði inngangi fréttanna og gat ekki betur heyrt en að ástæða væri til að ætla að fréttirnar frá Miðausturlöndum væru ömurlegri en nokkru sinni fyrr, og tölur um mannfall hækkandi. Það er alveg ljóst að þessi heimshluti er á barmi þess að rata inn í allsherjarstyrjöld með afleiðingum sem eru algjörlega ófyrirsjáanlegar og enginn veit hvernig mundu koma inn í þetta samhengi hér þó að það sé auðvitað aukaatriði borið saman við þær hörmungar og mannlegu þjáningar og mannslíf sem í húfi eru. Þannig er samt staðan. Boðað er að Bandaríkjamenn hafi áhuga á að ráðast á Írak. Varla mun það auka olíuframleiðsluna sem hefur verið að ná sér á eitthvert strik þrátt fyrir að framleiðslutæki og -tól hafi meira og minna verið eyðilögð í Flóabardaga eins og menn vita. Loks má nefna það að olíuríkið Venesúela er mjög ákveðið í þeirri afstöðu sinni að takmarka framleiðslu, beitir sér í hópi olíuframleiðsluríkja fyrir því að framleiðslan sé takmörkuð sem mest má vera til að ná upp heimsmarkaðsverðinu. Auðvitað þurfa þeir á þeim aurum að halda, Venesúelamenn, það er ekki spurning, en þeir eru í fararbroddi þeirra ríkja sem knýja verðið upp. Því miður, herra forseti, eru ekki mikil tilefni til bjartsýni.

Svo er annað sem menn verða auðvitað að hyggja að, m.a. að margt fleira en bensín og olíuvörur skipta máli í sambandi við verð á innfluttri vöru. Ætli innflutt vara í heild vegi ekki um 35% í neyslugrunninum og þar af kannski olíuvörur 10%? Þá eru eftir ein 25% sem eru aðrar mikilvægar innfluttar neysluvörur. Mér fyndist, herra forseti, að menn hefðu líka mátt horfa til þess hvers er að vænta í þeim vöruflokkum, og verðlagsþróun í þeim efnum, á næstu mánuðum. Mögulega væri skynsamlegt að líta að einhverju leyti til þeirra, ekki síður en þess sem hér á í hlut. Það gæti alveg komið til greina, herra forseti. Við vitum af reynslu að utanaðkomandi aðstæður geta alveg eins haft áhrif þar eins og hvað varðar bensín og olíuvörur.

Það hefur t.d. verið nefnt að ástand í efnahagsmálum í Asíu, í raun og veru allt frá því að kreppan gekk yfir í hagkerfinu í Asíu, hefur leitt til þess að Vesturlönd hafa notið góðs af lágu verði á vörum sem þaðan hafa borist. Menn hafa í raun og veru flutt þannig inn verðhjöðnun með vissum hætti. Þetta kom okkur t.d. mjög til góða á árunum 1997, 1998, 1999, og ein ástæðan fyrir því að okkur gekk mun betur þá að hafa tök á verðlaginu --- það var ekki snilld ríkisstjórnarinnar í hagstjórn sem einmitt þá lagði grunninn að mestu hagstjórnarmistökunum --- var sú staðreynd að við fluttum inn verðhjöðnun. Olíuverðið var á samfelldri niðurleið, gengi krónunnar var að vísu að styrkjast en bæði olíuverðið og stór hluti innflutningsvara okkar var á samfelldri niðurleið. Og auðvitað hjálpaði það til við að halda verðlaginu í böndunum.

Staðreyndin var sú að á þessum árum var undirliggjandi verðbólga í íslenska hagkerfinu upp á 3--5% en við fluttum inn verðhjöðnun á móti sem dugði til að helminga þessar hækkanir eða gott betur þannig að útkoman á köflum var prýðileg í þessum mælingum. En mörgum var ljóst að undirliggjandi verðbólgutilhneigingar voru til staðar. Um leið og við hættum að vera svona heppin að flytja inn verðlækkanir á móti, olíuverðið og annar innflutningur hækkaði, gengi krónunnar hætti að styrkjast --- ég tala ekki um eftir að það fór að veikjast --- fór auðvitað allt úr böndunum. Þær aðstæður hefðu mátt vera mönnum fyrirsjáanlegar.

Að lokum, herra forseti, er spurning um þá tímabundnu aðgerð sem hér er sett fram í frv. um að lækka vörugjald af bensíni um 1,55 kr. til loka júnímánaðar. Það er auðvitað öllum ljóst að það er svolítið hrá aðgerð sem slík, tímabundin og tiltölulega hrá aðgerð, að slengja þessu svona inn, 1,55 kr. í þennan tíma og búið. Sú aðferð er gölluð og ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, ég hygg hjá þingmönnum Samfylkingarinnar sem hafa talað, að auðvitað hefði þurft að skoða þetta betur vegna þess að allir sjá að það eru ekki mikil nákvæmnisvísindi að slumpa bara á þetta svona: Hendum þarna 1,55 kr. inn í þetta dæmi í þrjá mánuði og 1. júlí bang, búið, algjörlega án þess að vita hver verðlagsþróunin verður þá, hvernig verð á bensínvörum verður o.s.frv.

Ég hefði talið, herra forseti, að ef menn hefðu lagt aðeins meiri vinnu í þetta mál hefði út af fyrir sig að mörgu leyti verið álitlegt að taka inn í lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. verðjöfnunarþátt sem væri þannig útfærður að hann gengi út frá tiltekinni skilgreiningu í heimsmarkaðsverði á bensíni eða olíuvörum og það kæmi sveiflujafnari sem gæti kannski hlaupið á bilinu 0--5 kr. og byrjaði að virka við tiltekin lægri viðmiðunarmörk. Álagning ríkisins lækkaði ef bensínverðið hækkaði þangað til fimm krónurnar væru t.d. að fullu nýttar. Ef heimsmarkaðsverðið héldi svo enn áfram að hækka umfram það yrðu menn að taka á sig hækkanirnar hér innan lands. Síðan gerðist hið gagnstæða þegar heimsmarkaðsverð lækkaði, afslátturinn eyddist krónu fyrir krónu þangað til að ríkið héldi tekjum sínum að fullu á nýjan leik þegar heimsmarkaðsverðið væri komið niður að neðri mörkunum. Þetta er tiltölulega einfalt að útfæra, herra forseti. Ég giska á að það tæki mann korter að setja saman svona reglu og búa um hana í lögum. Þá held ég að þetta fyrirkomulag væri orðið nokkuð gott.

Við aftengdum hér ekki alls fyrir löngu hlutfallsálagninguna sem mjög hafði verið gagnrýnd, og af eðlilegum ástæðum. Þegar bensínverðið rauk upp úr öllu valdi jók ríkið tekjur sínar af því að álagningin var hlutfallsleg. Menn sáu að þetta stefndi í ógöngur, bjuggu út formúlu og festu gjaldið í tiltekinni krónutölu eins og nú er staðan. Ég held að það hafi tvímælalaust verið rétt aðgerð. En alveg kæmi til greina að ríkið bætti við þá breytingu sveiflujöfnunaraðgerð af þessu tagi og menn stilltu hana þannig af að til lengri tíma litið yrðu tekjur ríkisins sambærilegar við það sem þær væru að óbreyttu. Það er ekkert vandamál að skoða í grófum dráttum hvernig þessar verðsveiflur hafa gengið í gegnum tíðina. Þetta væri miklu betri útfærsla á málinu, herra forseti, ef ég má leyfa mér að fullyrða það, og hefði þann stóra kost sem núverandi aðgerð hefur ekki að flöktið í bensínverðinu og olíuvöruverðinu yrði minna. Og það er auðvitað enginn vafi á að það hefur óheppileg verðlagsleg áhrif --- ef ekki, þá a.m.k. sálræn --- þegar tímar ganga yfir eins og núna, að vikulega, hálfsmánaðarlega eða hið minnsta á mánaðarfresti eru auglýstar og tilkynntar hækkanir á bensíni og öðru vöruverði. Það eru auðvitað aldrei jákvæð skilaboð. Og aðrir hugsa sem svo: Nú, á bensínið að hækka einu sinni enn? Ég verð að fara að skoða þetta hjá mér. Bíddu, hvernig er með gjaldskrána mína? Ég nota nú dálítið bensín.

Ríkið væri þá í raun að leggja dálítið af mörkum til að draga úr þessu flökti, þessum sveiflum, og ef menn gerðu þetta svona sýnist mér að það gæti haft heillavænleg áhrif í verðlagslegu tilliti, dregið úr þessu flökti í útsöluverðinu sjálfu sem héldist þá óbreytt á meðan jöfnunarsvigrúmið dygði, upp og niður. Það væri þá ekki fyrr en það væri sprungið sem hækkandi heimsmarkaðsverð leitaði út í verðlagið og öfugt.

Herra forseti. Þetta hefði ég gjarnan viljað sjá að menn hefðu glímt við, og ég nefndi sem möguleika í efh.- og viðskn. í gær til viðbótar við þann möguleika sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt hér brtt. um. Sú tillaga kemur út af fyrir sig líka alveg til greina, og er til bóta að mínu mati frekar en ekki neitt en ég hefði talið betri útfærslu á málinu að ganga þannig frá því eins og ég var að lýsa. Um tillögu Samfylkingarinnar vil ég annars segja, herra forseti, að hún hefur þann kost að í staðinn fyrir að þessu ljúki í júnílok, eins og frv. ríkisstjórnarinnar hljóðar upp á, væru menn þó með það tryggt að þessi afsláttur héldist fram til 1. nóv. 2002. Alþingi gæti með öðrum orðum komið að málinu á nýjan leik, það verður að öllu óbreyttu komið aftur til starfa og verður til staðar til að takast á við aðstæður eins og þær kynnu þá að verða á haustmánuðum. Ég vil lýsa því yfir að fyrir mitt leyti er ég jákvæður í garð þess að þetta sé gert frekar en ekki neitt en hlýt þó að ítreka þá fyrirvara sem ég hef hér sett fram á útfærslu þessa máls.