Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 13:03:43 (6938)

2002-04-04 13:03:43# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[13:03]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál sem við ræðum og þær hugmyndir sem hefur verið velt upp í umræðum þingmanna undanfarnar mínútur finnast mér að mörgu leyti áhugaverðar. Ég hefði talið æskilegt að gera slíka tilraun sem hér hefur verið orðuð, að finna sveiflujöfnuninni stað í þessum lögum og að þeirri brtt., sem hér hefur verið flutt af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni, yrði breytt og hún útfærð þannig að inn í hana væri tekin þessi hugmynd um sveiflujöfnun. Síðan væri tímasetningin látin gilda til 1. nóvember. Þá fengju menn örlitla reynslu af því hvernig þetta virkaði yfir sumartímann og fram á haustið. Þá væri auðveldlega hægt að bregðast við því í upphafi þings á næsta hausti.

Ég tel það virkilega tilraunarinnar virði að gera slíka sveiflujöfnunartilraun sem þeir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafa orðað hér í umræðunum. Ég hefði talið að það væri mjög áhugavert og skil þess vegna ekki alveg viðbrögð hæstv. ráðherra, að taka ekki undir að hugsa megi slíka útfærslu og láta gilda til skamms tíma. Þá fengju menn ákveðna reynslu af henni. Ég held að það sé mjög áhugavert, að fá ákveðna reynslu af því hvernig það kemur út að vera með sveiflujöfnun að þessu leyti. Þess vegna vil ég lýsa stuðningi við þær hugmyndir en vil jafnframt lýsa stuðningi við frv. eins og það liggur hér fyrir.