Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 13:08:08 (6940)

2002-04-04 13:08:08# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[13:08]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti o.fl. felur í sér að lækka tímabundið vörugjald af bensíni, m.a. til að halda niðri verðbólgu eða halda niðri þeirri mældu verðbólgu sem nú er á uppleið. Komið hefur fram að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs styðja þetta frv. í megindráttum eins og það er lagt fram. En hér hefur þó verið bent á að hættulegt sé að einblína á mælingu á vísitölu verðlags. Það er jú heildarpakkinn, heildarkostnaðurinn við framfærslu og rekstur á heimili og þjóðfélagi sem skiptir máli. Hækkanir sem hafa áhrif á þjóðfélagið í heild sinni kalla á að við þeim sé brugðist.

Hækkanir geta komið misþungt niður á þjóðfélagshópum eftir því hver staða þeirra er í samfélaginu. Verðbreytingar á vörum og þjónustu geta snert sjúklinga, námsmenn, elli- og örorkulífeyrsþega og haft alvarlegar afleiðingar og slæm áhrif á stöðu þessara hópa þó að þær mælist ekki mjög hátt í vísitölu neysluverðs. Það verður að gæta sín á að falla ekki niður í einhvern blekkingarleik með vísitöluna bara til þess að ná fram tímabundnu markmiði varðandi svokölluð rauð strik.

Varðandi það sem hér er verið að leggja til þá hefur þessi lækkun á vörugjaldi áhrif á fjárlög ríkisins. Fjárlög fyrir þetta ár voru jú afgreidd fyrir áramót og nú þegar hafa verið lagðar til breytingar á fjárlögunum af hálfu ríkisstjórnarinnar og framkvæmdarvaldsins. Sumt er komið til framkvæmda, t.d. frestun á hækkun afnotagjalds Ríkisútvarpsins, og nú lækkun á þessu vörugjaldi. Þær breytingar sem hafa verið gerðar eru samkvæmt nál. taldar hafa áhrif sem nema um 750 millj. kr. á fjárlög þessa árs.

Nú er það svo, herra forseti, varðandi breytingarnar á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins að þegar þær voru kynntar var sagt að þetta væri tímabundið og að Ríkisútvarpinu yrði beinlínis bætt það fjárhagstjón sem það yrði fyrir með þessum hætti og þá væntanlega á fjárlögum. En því miður virðist það ekki hafa gengið eftir. Ég minni á að Alþingi samþykkti við gerð fjárlaga þennan fjárhagsramma Ríkisútvarpsins í heild sinni. Þessi breyting var kynnt á sínum tíma með þeim hætti að ekki væri ætlunin að ganga á fjárhag Ríkisútvarpsins. Þarna skortir enn verulega á efndir á því sem hefur verið kynnt.

Það sem ég ætla að vekja athygli á, virðulegi forseti, er að samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins ber að setja allar breytingar sem verða á fjárlögunum milli afgreiðslu fjárlaga frá einu ári til annars í ákveðinn farveg, þ.e. með fjáraukalögum. Komi upp ófyrirsjáanlegur kostnaður eða skerðing á tekjustofnum, tekjum ríkisins, ber að kynna það fyrir fjárln. og einnig að bera fram í sérstökum fjáraukalögum.

Ég tel, virðulegi forseti, nauðsynlegt að þetta sé haft í huga við umræður og meðferð þessa máls. Breytingarnar sem hér er verið að leggja til, svo og aðrar sem hafa verið kynntar af hálfu framkvæmdarvaldsins varðandi breytingar á fjárlögum, eiga að fara í þennan farveg, til meðferðar, kynningar og eftir atvikum til meðferðar fjárln. og koma síðan fram í sérstökum fjáraukalögum.

Ég hef lagt til að fjáraukalög verði líka gefin út á vorin við lok þings þannig að Alþingi afgreiði með formlegum hætti þær breytingar sem talin hefur verið ástæða til að gera á gildandi fjárlögum. Þannig gætum við á hverjum tíma unnið samkvæmt löglegum samþykktum Alþingis í fjárlagagerðinni. Þetta tel ég að eigi við um þetta mál eins og önnur. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki sé ætlunin að standa við þau ákvæði sem lögin um fjárreiður ríkisins kveða á um, að þessar breytingar og aðrar sem hafa verið lagðar til og ákveðnar af framkvæmdarvaldinu verði ekki teknar fyrir áður en þingi lýkur. Er þess ekki að vænta varðandi aukin fjárútlát og skerðingu á tekjustofnum ríkisins að staðið verði við lögin um fjárreiður ríkisins þannig að þessi mál verði tekin fyrir og kynnt með formlegum hætti í fjárln. og síðan verði komið með fjáraukalög fyrir lok þings í vor þannig að öllu sé lagalega rétt til skila haldið?

Ég vildi minna á, virðulegi forseti, nauðsyn þess að Alþingi taki eins og því er rétt og skylt á breytingum á fjárlögum sem kann að vera nauðsynlegt að gera milli fjárlagaára.