Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 13:15:47 (6941)

2002-04-04 13:15:47# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[13:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þarf ekki að spyrja þeirrar spurningar hvort það eigi að fara að fjárreiðulögunum. Auðvitað verður það gert. Ég veit reyndar ekki betur en að boðað sé til fundar í fjárln. í næstu viku til að fara yfir þær breytingar sem orðið hafa og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið frá því að fjárlög voru afgreidd. Þessi spurning þingmannsins er því að sjálfsögðu óþörf.

Síðan bætti hann því við, eins og hann gerir jafnan í umræðum um þetta mál, að hann telji að það eigi að flytja frv. um fjáraukalög að vori. Það verður ekki gert í vor. Ekkert ákvæði er um það í fjáraukalögum að slíkt beri að gera. Þessari spurningu hefur margoft verið svarað. Fjáraukalög munu koma fram á hefðbundnum tíma í haust eins og verið hefur undanfarin ár.