Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:21:03 (6952)

2002-04-04 15:21:03# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að taka það upp sem hér var endað á. Það er hárrétt sem hér var kallað fram í, vinstri grænir höfnuðu trúnaði þó að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hafi þegið þennan trúnað á fyrsta fundi þar sem um orkuverðið var fjallað. Eftir það neituðu vinstri grænir að taka við slíkum trúnaðarupplýsingum, og auðvitað hefur það áhrif á málið.

Herra forseti. Ég tel að það sé nokkuð borin von að reyna að sannfæra vinstri græna um ágæti þessa máls miðað við þá undarlegu sýn sem þeir hafa á það. Það ætti ekki að þurfa að minna enn einu sinni á að frv. þetta er einungis almenn heimild til hæstv. iðnrh., eins og venjan er til framkvæmdarvaldsins, um að veita virkjunarleyfið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Um það snýst málið og ekkert annað.

En ég hlýt, herra forseti, að gera alvarlegar athugasemdir við það sem ég vil kalla allt að því blekkingarleik hjá vinstri grænum. Annars vegar segir í þessu merka frhnál. að hv. iðnn. hafi í morgun ákveðið að gera skýrslu um heimsókn þeirra sem þangað komu. Það vantar bara lögregluskýrslu. Sá er andinn sem svífur yfir þessu frhnál. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Það var ákveðið að biðja ritarana um að taka saman í tímaröð þá lýsingu sem kom fram hjá þeim heiðursmönnum sem lýstu atburðarásinni, og taka jafnframt fram það sem hefur komið fram í fjölmiðlum. Það er mikill munur á því eða allt að því lögregluskýrslu.

Hins vegar hlýt ég líka að gera athugasemdir við útgangspunktinn í þessu frhnál. þar sem er í rauninni verið að fjalla um refsiákvæðið. Hvert er tilefni þessara hugrenninga í frhnál.? Væntanlega það að hv. þm. ber brigður á þau orð sem fram komu hjá heiðursmönnunum, gestum nefndarinnar, í morgun. Átta nefndarmenn tóku orð þeirra trúanleg en ekki hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson. Og það er grafalvarlegt mál.