Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:23:23 (6953)

2002-04-04 15:23:23# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það að leyna upplýsingum eða þiggja ekki að taka við upplýsingum séu hlutir sem þarf að ræða líka. Við ræddum það í mínum þingflokki, Vinstri hreyfingunni --- grænu framboði, að það væri óásættanlegt að taka við upplýsingum í nefndum sem við gætum síðan ekki áfram gefið okkar nánustu samstarfsmönnum í þingflokknum. Við settum, og setjum, fram gagnrýni á það og viljum ræða það, m.a. með skipun svona nefndar, að skýrt sé kveðið á um það og menn séu sammála um hvernig eigi að fara með svona upplýsingar og hvernig eigi að veita þær. Við höfum ekki lagst gegn því að taka við trúnaðarupplýsingum. Það hef ég gert eins og ég hef áður sagt.

Ég geri mér líka alveg grein fyrir því, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason sagði, að hér er um að ræða almenna heimild til þess að Landsvirkjun fái að virkja við Kárahnjúka og Kröflu. Ég set líka mjög stórt spurningarmerki við það, sérstaklega vegna þess að þarna er búið að hnýta tvö svæði saman, Kröflusvæðið og síðan Kárahnjúka, og fyrirtækið heldur þessu leyfi í langan tíma.

Hvað varðar skýrslu sem kallað er eftir í nál. er hún túlkunaratriði. Ég var samþykkur því orðalagi en segi í nál. að það sé spurning um hvað maður kallar skýrslu. Ég er ekki að tala um lögregluskýrslu. Ég er að tala um framsetningu, útlistun á málinu, eins og var talað um á fundinum og ég held að ekki þurfi að mistúlka það þótt ég segi í nál. að ég sé ánægður með að þetta verði tekið saman og farið yfir atburðarásina. Það er í mínum huga eins konar skýrsla og er sjálfsagt hægt að nota á íslensku um það ein þrjú eða fjögur fleiri orð ef menn vilja það. En ég kaus að nota orðið skýrsla.