Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:40:03 (6958)

2002-04-04 15:40:03# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég minni hv. þm. á að fyrir utanrmn. hins háa Alþingis liggur þáltill. frá þingmönnum Samfylkingarinnar um sjálfstæði Palestínu. Ég tel mjög brýnt að sú tillaga verði afgreidd sem allra fyrst og lýsi okkur í Samfylkingunni reiðubúin að funda um hana hvenær sem er og þess vegna strax í dag. Það þarf að flýta þeirri afgreiðslu þannig að afstaða Alþingis liggi fyrir, til ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs, sjálfstæðis Palestínu og stöðunnar þar.

Í þessari tillögu er líka lagt til að alþjóðlegar öryggissveitir eða friðargæslusveitir verði sendar til verndar Palestínumönnum og ekki veitir af. Þegar þeirri afgreiðslu er lokið, sem vonandi verður sem allra fyrst, herra forseti, hefur hæstv. utanrrh. vilja Alþingis í höndunum. Ég geri ráð fyrir því að hún eigi stuðning langflestra hér inni ef ekki allra. Það eru mjög skýr skilaboð sem hægt er að senda umheiminum og það þarf að fylgja þeim eftir, herra forseti. Það er ekki nóg að álykta heldur þarf að fylgja þeim eftir. Það þarf að taka upp símann, hringja, hvort sem það er í utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Ísraels eða til samstarfslanda okkar annarra. Það þarf að beita sér með öllum tiltækum ráðum. Við vitum það öll, herra forseti, að lykillinn að lausninni í átökunum á milli Ísraels og Palestínu er hjá Bandaríkjastjórn. Hún ein getur dregið að sér hendurnar eða tekið í taumana öllu heldur og svipt Ísraelsmenn þeim stuðningi sem Ísraelsstjórn hefur haft til að halda úti stríðinu gegn Palestínumönnum.