Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:42:08 (6959)

2002-04-04 15:42:08# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:42]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Þjóðir heimsins fylgjast af vaxandi ugg með þróun deilnanna milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Auðvitað er ljóst að það er mikil harka hlaupin í málin og sífellt erfiðara að fá deiluaðila að sáttaborðinu.

Ísland hefur frá upphafi stutt stofnun og tilverurétt Ísraelsríkis en styður einnig sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna. Sá stuðningur kemur gleggst fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem fjöldi ályktana er samþykktur um deilur Ísraels og Palestínumanna á hverju ári. Það er brýnt að á alþjóðlegum vettvangi verði stórauknum þrýstingi beitt til að leysa deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafsins. En slík lausn þarf að fela í sér að Ísrael verði tryggt öryggi innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra og stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínu.

Ég tek undir með hæstv. utanrrh. um að alþjóðlegar friðargæslusveitir taki að sér friðargæslu fyrir botni Miðjarðarhafs. 12. mars samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun þar sem í fyrsta sinn er talað um ísraelskt og palestínskt ríki í sömu andrá. Þessi ályktun gaf auðvitað von um raunverulegan vilja til að miðla málum og virkilega taka á til friðarsamkomulags milli Ísraels og Palestínumanna. Þar er talað um svæði þar sem þessi tvö ríki þrífist hlið við hlið innan öruggra og viðurkenndra landamæra.

Sáttafulltrúi Bandaríkjanna hefur nú dvalið á svæðinu í nokkurn tíma og hefur freistað þess að miðla málum, án sýnilegs árangurs enn sem komið er. Nú er auðvitað svo komið að friðarferlið sem menn bundu svo miklar vonir við er í algjöru uppnámi. Það er þess vegna nauðsynlegt að skapa skjól fyrir þær mikilvægu friðartilraunir sem standa yfir til að vænta megi árangurs. Þess vegna hvílir mikil ábyrgð á deiluaðilum að sjá til að það megi takast.