Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:53:06 (6964)

2002-04-04 15:53:06# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:53]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að eins og staðan er í dag eru meiri líkur á vaxandi átökum milli Ísraelsmanna og Palestínumanna en á þeirri nauðsynlegu málamiðlun sem er forsenda fyrir því að við náum viðunandi niðurstöðu í þessum heimshluta. Það er líka ljóst að ástandið eins og það hefur verið að þróast á undanförnum vikum og mánuðum milli Ísraelsmanna og Palestínumanna hefur orðið til þess að þeir hafa eflst sem ekki vilja fara friðarferlið sem menn hafa þó viljað keppa að í alþjóðasamfélaginu.

Ef við skoðun ástandið frá því í september árið 2000 þegar úti var um friðinn hafa 1.500 manns fallið, þar af um 250 Palestínumenn og 125 Ísraelsmenn bara á sl. mánuði. Þetta er auðvitað hroðalegt ástand sem allir hljóta að fordæma. Ég held hins vegar að það sé varasamt að gera það með þeim hætti, eins og hér var ýjað að áðan, að við ættum að beina mótmælum okkar eingöngu til annars aðilans. Við hljótum að fordæma hryðjuverk í hvaða formi sem þau eru, af hvaða aðila sem þau eru framin.

Ég vek athygli á því að þrátt fyrir að Arafat hafi fordæmt hryðjuverkin hefur hann hins vegar ekki kosið að ráðast af fullri hörku gegn þeim sem hafa staðið fyrir þessum hryðjuverkum, ef ekki á hans vegum þá einstakra Palestínumanna. Það er líka ljóst mál varðandi Sharon að sú leið sem hann er að fara er leið til glötunar í stríði sem er vonlaust að nokkur maður sigri. Það er ástæða til að fordæma það sem þar fer fram. Það er enn fremur augljóst mál að það er eingöngu ein leið til út úr þessu, það er pólitísk lausn sem hefst með tafarlausu vopnahléi á grundvelli Mitchell-skýrslunnar eins og hæstv. utanrrh. sagði. Framtíðarsýnin er og verður tvö sjálfstæð ríki, Ísrael og Palestína, sem búi hlið við hlið innan viðurkenndra og öruggra landamæra, alveg eins og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ályktað um og við Íslendingar höfum talað fyrir.

Ég vek athygli á því að það er líka sitthvað jákvætt að gerast, m.a. frumkvæði Sádi-Araba, ályktanir Sameinuðu þjóðanna, afskipti Bandaríkjamanna og ekki síður Evrópusambandsins af málunum á undanförnum dögum.