Ástandið í Palestínu

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:59:53 (6967)

2002-04-04 15:59:53# 127. lþ. 110.95 fundur 461#B ástandið í Palestínu# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel að við Íslendingar höfum talað mjög skýrt í þessu máli, og Ísraelsmenn gera sér góða grein fyrir því hver afstaða okkar er. Hún var ástæðan fyrir því að sendiherrann fyrir Ísland kom hingað til lands og átti ítarlegar viðræður við utanrrn. Grannt er fylgst með því hvernig umræður eru hér á landi.

Við höfum stutt af mikill eindrægni aðgerðir og afstöðu Evrópusambandsins í þessu máli. Við höfum átt samráðsfundi með Evrópusambandinu út af þessu máli og afstaða þess er jafnframt afstaða okkar og Norðmanna. Við höfum stutt Norðmenn mjög eindregið í forustu þeirra í öryggisráðinu sem lauk núna um mánaðamótin, og það er ástæða til að þakka þeim sérstaklega þann árangur sem þeir náðu með því að ná fram í öryggisráðinu samhljóða ályktun.

Við notum jafnframt hvert tækifæri til að ræða þessi mál við aðrar þjóðir. Ég hef átt viðræður um þau við utanríkisráðherra Rússlands og utanríkisráðherra Spánar, sem er í forustu fyrir Evrópusambandið, og við munum halda áfram að nota hvert tækifæri til að leggja okkar lóð á vogarskálina í þessu afskaplega erfiða og viðkvæma máli. Ég tel að um það sé ágæt samstaða hér á hv. Alþingi sem ég tel mjög mikilvægt. Þessi skilaboð eru skýr, þau hafa komist til skila og við munum halda áfram að koma þeim til skila.