Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 10:35:51 (6973)

2002-04-05 10:35:51# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, Frsm. 1. minni hluta GÖ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Frsm. 1. minni hluta félmn. (Guðrún Ögmundsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta félmn. um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna en nál. undirritar sú sem hér stendur og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Þar segir, með leyfi forseta:

Með frumvarpinu er lagt til að allir erlendir ríkisborgarar, aðrir en danskir, sænskir, norskir og finnskir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, njóti framvegis kosningarréttar og kjörgengis við sveitarstjórnarkosningar. 1. minni hluti telur frumvarpið ganga of skammt. Annars staðar á Norðurlöndum fá norrænir ríkisborgarar kosningarrétt til sveitarstjórna um leið og þeir skrá lögheimili í viðkomandi landi. Sama á að gilda hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum að mati 1. minni hluta og er lögð til breytingartillaga í þá veru.

Jafnframt leggur 1. minni hluti til að aðrir erlendir ríkisborgarar en norrænir fái kosningarrétt til sveitarstjórna eftir þriggja ára búsetu hér á landi. Er þetta til samræmis við norrænar reglur, svo og reglur frumvarps til laga um útlendinga um búsetuleyfi, en veita má útlendingi slíkt leyfi eftir samfellda þriggja ára dvöl hér á landi. Er það mat 1. minni hluta að með frumvarpinu sé allt of skammt gengið í þessum málum.

Þá telur 1. minni hluti að með þeim breytingum sem nú er verið að gera hefðu átt að koma heimildarákvæði um rafrænar kosningar. Í því felst framtíðarsýn sem er óhjákvæmileg og hefði verið nauðsynlegt að taka á því efni nú með afgerandi hætti. Slíkt er ekki gert, þrátt fyrir umsagnir og óskir um lögfestingu slíkrar heimildar nú. Það hefur sýnt sig í aðdraganda væntanlegra sveitarstjórnarkosninga að margir nýttu sér rafrænt fyrirkomulag við val frambjóðenda og hefði það verið tilvalin reynsla til að nýta nú í kosningunum til sveitarstjórna. Leggur 1. minni hluti því til að slík heimild verði sett í ákvæði til bráðabirgða.

Að öðru leyti er 1. minni hluti samþykkur þeim breytingum sem felast í frumvarpinu, svo sem að fallið er frá kröfu um meðmælendur á framboðslistum í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri, svo og öðrum þeim breytingum sem lúta að samræmi við lög um kosningar til Alþingis.

Undir nál. rita hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Eins og ég sagði áðan erum við með brtt. til samræmi við breytingar á Norðurlöndunum. Okkur finnst það í rauninni undarlegt að úr því að verið er að fara í þessar breytingar að við samræmum okkur ekki með Norðurlöndunum. Mér finnst það afar sérkennilegt í rauninni að við séum að segja okkur úr hinu norræna samfélagi að hluta til með þeim hætti.

Jafnframt þetta með aðra útlendinga. Mér fyndist eðlilegt að við samhæfðum okkur með öðrum norrænum þjóðum og hefðum þriggja ára búsetuskilyrði í staðinn fyrir fimm. En okkur skildist strax við 1. umr. að um þetta mál hefði náðst þessi sátt í ríkisstjórninni. Hins vegar vitum við vel um mjög mikinn vilja hjá stórum hópi þingmanna, sérstaklega þeirra kannski sem þekkja vel til norræns samstarfs, um að verða við þessum breytingum. Við munum auðvitað láta á það reyna við atkvæðagreiðsluna.

Varðandi rafrænu kosningarnar þá þótti okkur mjög sérkennilegt að ekki kæmi inn heimild til bráðabirgða þannig að hægt væri að fara í slíkar tilraunir í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Okkur þótti það kannski sérkennilegast vegna þess að sá flokkur sem nýtti sér þá nýjung hvað mest í prófkjörum er einmitt einn af aðildarflokkum ríkisstjórnarinnar, Sjálfstfl. Okkur fannst það því skjóta mjög skökku við að bráðabirgðaheimildin skyldi ekki vera þarna inni.

Ég vona að tillögur okkar, sérstaklega hvað varðar norrænu borgarana, því við berum hag þeirra auðvitað mjög fyrir brjósti --- við viljum breyta til samræmis við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum, það er ekki eðlileg hugsun að við eigum alltaf að hafa meiri rétt en aðrir norrænir borgarar. Ég held að við verðum að láta af þeirri hugsun en fara að hugsa um jafnstöðu norrænna borgara.