Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 10:53:13 (6975)

2002-04-05 10:53:13# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna eins og ljóst er orðið. Aðallega höfum við verið að ræða brtt. sem minni hluti félmn. hefur lagt fram við þetta frv.

Það er auðvitað nánast hneyksli að menn ætli að láta aðrar reglur gilda um norræna borgara hér en gilda um um Norðurlandabúa alla á hinum Norðurlöndunum. Ég trúi því ekki að menn ætli að samþykkja í þinginu að um Norðurlandabúa eigi að gilda önnur lög og önnur réttindi hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Ég veit ekki betur en þetta hafi verið sérstakt baráttumál Norðurlandaráðs að samræma löggjöf sem kallað er ,,grænseløst Norden`` þar sem Norðurlandabúar byggju við sambærilega löggjöf á öllum Norðurlöndunum hvað þetta varðar.

Það er líka ansi hart að horfa upp á að ekki eigi að bjóða nýja borgara, sem hafa komið hingað til lands og sest hér að, velkomna með því að leyfa þeim að taka þátt í að velja stjórn sveitarfélagsins sem þeir dvelja í og ég er því mjög hissa á að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ekki ganga lengra í þessum efnum.

Mig langar líka til að minna á að Samfylkingin hefur barist fyrir því að breyta lögum í þá veru að auka rétt útlendinga til að taka þátt í kosningum. Ég minni á að nú liggur hjá félmn. þingmál, þ.e. frv. til laga um breytingar á þessum lögum sem við erum að fjalla um hér. Það frv. hefur verið flutt í tvígang. Fyrst var það Mörður Árnason varaþm. sem flutti frv. til breytinga um aukinn rétt útlendinga til þátttöku í sveitarstjórnarkosningum. Það var á 126. löggjafarþingi, þ.e. á síðasta þingi. Á þessu þingi fluttu síðan frv. hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og sú sem hér stendur.

Þetta mál hefur ekki fengist tekið fyrir í nefndinni. Hér er komið frv. sem gengur svo skammt að það er alveg með ólíkindum. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir hefur gert grein fyrir brtt. sem við höfum lagt fram með þessu frv. en ég vil hnykkja aðeins á henni. Við leggjum reyndar fram tvær brtt., annars vegar að norrænir íbúar hér eigi sama rétt og Íslendingar til kosninga sem og aðrir útlendingar eftir þriggja ára dvöl, eins og reglurnar eru á Norðurlöndunum.

Annað mál sem vil ég sérstaklega gera að umræðuefni er heimildin til að nota rafrænar kosningar. Við höfum hér lagt fram brtt. um ákvæði til bráðabirgða þar sem sveitarfélögum er heimilt að hafa til reynslu rafræna kjörstaði og færa rafræna kjörskrá. Við vitum að ýmis sveitarfélög hafa hug á rafrænni kosningu og þar sem rafræn kosning hefur verið reynd, m.a. í prófkjörum hjá Sjálfstfl., hefur þetta gefist ágætlega. Þess vegna er það sérkennilegt, eins og kom fram hér í umræðunni og hefur einnig komið fram í nefndinni að Sjálfstfl. skuli leggjast gegn því að beita nútímalegum vinnubrögðum við kosningar.

Ég sem þingmaður Reykvíkinga tel mikilvægt fyrir Reykjavíkurkjördæmi að heimilað verði að nota rafræna kjörstaði og rafrænar kosningar. Kosningaþátttaka hefur minnkað undanfarið, þeim hefur fækkað sem hafa tekið þátt í kosningum. Ég er alveg sannfærð um að rafrænn kjörstaður þar sem allir gætu komið, þ.e. væru ekki bundnir við ákveðna kjörstaði í byggðarlagi sínu eða hverfi, mundi auka og auðvelda kjósendum að komast á kjörstað. Það mundi alla vega ekki verða til að draga úr kjörsókn.

Herra forseti. Ég vildi koma þessu að. Ég tel að það eigi að greiða atkvæði um þetta. Ég er ekki sammála því að draga til baka brtt. í þá veru að rafrænar kosningar verði heimilaðar í bráðabirgðaákvæði. Ég trúi því ekki að meiri hluti þingmanna sé á móti því að beita slíkum aðferðum. Ég tel að það sé full ástæða til að láta á það reyna og það komi þá bara í ljós hver hugur þingmanna er í þeim efnum, hvort þeir eru á móti því að nota rafrænar kosningar þegar komin er ágæt reynsla á þær, eins og komið hefur fram í umræðunni. Ég tel að greiða eigi um það atkvæði við afgreiðslu á þessu frv.

Að öðru leyti er ég fylgjandi þeim breytingum sem eru í þessu frv. Þar er verið að færa löggjöfina um kosningar til sveitarstjórna til samræmis við alþingiskosningar. Þær breytingar eru flestar til bóta nema þá að ég tel fáránlegt að ganga svo skammt varðandi norræna íbúa og útlendinga og einnig að ekki skuli heimiluð rafræn kjörskrá og kjörstaðir í sveitarstjórnarkosningum.