Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:12:31 (6981)

2002-04-05 11:12:31# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, Frsm. meiri hluta ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:12]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar kom fram að um einhvern lapsus í félmn. hafi verið að ræða að ekki væru teknar inn breytingar varðandi Norðurlandabúana. Ég vil að það komi skýrt fram að þar var ekki um neinn lapsus að ræða. Þetta var einfaldlega ákvörðun sem meiri hluti félmn. stendur að í því nál. sem hér liggur fyrir. Frv. gerði ekki ráð fyrir að teknar væru inn breytingar varðandi Norðurlandabúana, enda hafa þeir sömu réttindi og þeir hafa haft hér um árabil. Ráðherra lagði ekki til að breyting yrði á því að þessu sinni og meiri hlutinn taldi ekki ástæðu til að breyta því og lagði þess vegna til að frv. yrði samþykkt óbreytt eins og það var lagt fram á Alþingi með þeim breytingum á kosningalögunum sem þar eru gerðar.

Ég vildi að þetta kæmi fram, hæstv. forseti, að nefndin tók þá afstöðu mjög yfirvegað og að engin handvömm væri í því, ef þetta orð, lapsus, sem þingmaðurinn notaði ætti að þýða það. Ég vil jafnframt taka fram að þar sem hv. þm. á sæti í félmn. hafði hann öll tækifæri til þess að koma fram með brtt. ef hann vildi.