Bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 11:23:08 (6985)

2002-04-05 11:23:08# 127. lþ. 111.3 fundur 347. mál: #A bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur# (reikningshald í erlendum gjaldmiðli) frv. 25/2002, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[11:23]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. vegna frv. til laga um breyting á lögum um bókhald, lögum um ársreikninga og lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði allmikið um þetta mál. Það var sent til umsagnar og komu gestir á fund nefndarinnar svo sem getið er um í nál.

Nefndin gerir allnokkrar tillögur til breytinga á frv. Þær eru í níu liðum. Ég mun nú gera grein fyrir þessum brtt.

Í 1. lið brtt. er lagt að 3. efnismgr. 2. gr. frv. falli niður. Mál þetta snýst um hvort gera eigi þá kröfu að fyrirtæki sem færa ársreikninga sína í erlendum gjaldmiðlum færi samhliða bókhald í íslenskum krónum. Eftir mikla umfjöllun varð niðurstaða nefndarinnar sú að ekki væri þörf á slíku heldur að grunnbókhaldið yrði aðeins í þeirri erlendu mynt sem fyrirtækin veldu sér.

Í 2. lið brtt. er gerð orðalagsbreyting fyrst og fremst til þess að fyrirbyggja misskilning. Hún snýst um hvað orðin ,,á starfsstöð`` þýða.

Í 3. lið brtt. er orðalagsbreyting til samræmingar.

Í 4. lið brtt. er líka breyting á orðalagi til frekari skýringar. Spurningin snýst um hvar starfsemi félaga sé eða hvar viðskipti þeirra séu og hvernig farið er með slík mál. En fyrst og fremst er hér um að ræða skýringaratriði.

Í 5. lið brtt. er nokkuð veigamikil breyting sem fjallar um það að almennt gildi það svo að félög sem fengið hafa heimild til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli skuli umreikna fjárhæðir í efnahagsreikningi fyrra árs á lokagengi þess árs. Þó sé heimilt að umreikna efnahagsliði, aðra en peningalegar eignir og skuldir á upphaflegu kaupgengi. Jafnframt verði heimilt að umreikna innborgað hlutafé eða stofnfé á því gengi sem gilti þegar innborganir fóru fram. Þetta er mikilvægt atriði til þess að þessar breytingar geti gengið betur fyrir sig.

Í 6. lið brtt. er gert ráð fyrir því að hægt sé að sækja um heimild til 30. apríl í stað 28. febrúar. Þetta stafar af því hvað hefur dregist að afgreiða málið.

Í 7. lið brtt. er fjallað um ákvörðun á skattstofnum og að sú umreikningsaðferð sem þarna er lögð til verði almennt viðurkennd í reikningsskilum þegar verið er að reikna fjárhæðir úr starfrækslugjaldmiðli yfir í annan gjaldmiðil þannig að þetta verði tiltölulega auðvelt í notkun.

Hér er um að ræða breytingu á skattalögunum og er í sjálfu sér ekki annað að segja um þetta en það að þegar fyrirtæki færa bókhald sitt og ársreikning í erlendum gjaldmiðli þá fylgir því ákveðið vandamál, því að ef tekjur fyrirtækisins eru flæðistærð sem verður til í erlendum gjaldmiðli þá er spurning hvernig þær tekjur umreiknast yfir í íslenskar krónur og hvernig skattur er lagður á, en almennt séð eru tekjur fyrirtækisins í erlendum gjaldmiðli útgangspunktur fyrir skattlagningu. Að öðru leyti má segja að þessar breytingar hafi engin áhrif á skattgreiðslu fyrirtækja. Eina álitamálið er í rauninni spurningin um tekjuskatt fyrirtækjanna. Það er ekkert álitamál varðandi virðisaukaskatt eða slíka skatta þar sem yfirleitt liggur fyrir hvernig skattkröfur myndast.

Í 8. lið brtt. er fjallað um tæknilegar breytingar sem snúa að launagreiðslum og slíkum þáttum, en ekki er reiknað með því að það hafi nein áhrif á núverandi framkvæmd.

Loks er í 9. lið brtt. lögð til breyting á gildistökuákvæði frv. þannig að lögin öðlist gildi í rauninni við samþykkt en að komi til framkvæmda frá og með 1. janúar 2002, þannig að fyrirtæki geti breytt um miðað við áramót 2002.

Virðulegi forseti. Þetta er í stuttu máli yfirlit yfir þær brtt. sem efh.- og viðskn. gerir á frv., en hún leggur til að málið verði samþykkt.