Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 12:14:07 (6996)

2002-04-05 12:14:07# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, HBl
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[12:14]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alltaf álitamál hvaða rétt eigi að veita erlendum mönnum sem eru búsettir hér á landi. Hið sama má segja um hvaða réttar við getum krafist ef við erum í öðrum löndum. Í grófum dráttum er ég þeirrar skoðunar að um það hljóti að gilda almennar reglur vegna jafnréttisákvæða stjórnarskrárinnar og þeirra hugmynda sem nú eru uppi um þau efni í veröldinni.

[12:15]

Ég tel eðlilegt að Norðurlandabúar hafi ríkari rétt hér á landi en aðrir varðandi kosningarrétt og kjörgengi til sveitarstjórna af þeim sökum að þar er um gagnkvæmar heimildir að ræða. Ég man ekki alveg sögu þessa, en ef ég man rétt var gert ráð fyrir því á sínum tíma í áliti eða niðurstöðu nefndar um þessi efni að miða skyldi við þrjú ár, þriggja ára búsetu í hverju landi, og að lögum hafi verið breytt í samræmi við það, en Svíar hafi hins vegar gengið á undan öðrum og veitt ríkari rétt þar en var t.d. hér á landi og í öðrum Norðurlöndum. Þessi réttur, eins og ég man það, var á þeim tíma bundinn við norræna menn og um gagnkvæman rétt var að ræða. Þetta er raunar í samræmi við þau ákvæði sem sett voru í kosningalög eftir að Ísland varð fullveldi 1918. Þá var gert ráð fyrir því að til þess að danskir þegnar hefðu hér kjörgengi og kosningarrétt yrðu þeir að vera búsettir hér á landi í fimm ár og auðvitað átti það búsetuákvæði jafnt við um Íslendinga sem danska menn.

Í því frv. sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að óbreytt ákvæði skuli gilda um Norðurlandamenn, að þeir skuli hafa átt lögheimili hér samfellt í þrjú ár fyrir kjördag til þess að hafa hér kosningarrétt. Á hinn bóginn er rétt að minna á að sú regla gildir í löndum Evrópusambandsins að sama daginn og borgari færir lögheimili sitt þá öðlast hann slíkan rétt. Þannig hafa Spánverjar og Portúgalar atkvæðisrétt til sveitarstjórna í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi sama daginn og þeir flytja til þessara landa, ef þeim svo sýnist, einungis með því að flytja lögheimili sitt.

Ég skil auðvitað vel að þeir menn sem eru áhangendur þess að við göngum í Evrópusambandið skuli sækjast eftir því að þurrka út þann rétt sem íslenskir ríkisborgarar hafa hér á landi með þessum hætti og færa okkur þannig inn í það fjölþjóðasamfélag sem Evrópusambandið er. En þar sem ég er ekki hlynntur því að við Íslendingar göngum í Evrópusambandið get ég ekki undir það tekið.

Það eru að sjálfsögðu engin rök að við á Íslandi þurfum að breyta kosningalögum okkar einungis af því að aðrar hugmyndir eru uppi í þeim efnum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en hér á landi. Ég hygg að nauðsynlegt sé að þetta komi fram, að ég tel að hér sé um gagnkvæman rétt að ræða. Við höfum þennan rétt á öðrum Norðurlöndum og af þeim sökum eru forsendur fyrir því að aðrir erlendir ríkisborgarar en Norðurlandabúar skuli þurfa að eiga heima hér á landi samfellt í fimm ár til þess að öðlast hér kosningarrétt og kjörgengi til sveitarstjórna.

Ég vil að það sjónarmið mitt komi hér fram að mér finnst eðlilegt að áður en menn hafi rétt til þess að bjóða sig fram eða taka þátt í kosningum til sveitarstjórna þá hafi þeir búið einhvern tíma í viðkomandi landi, hafi áttað sig á kringumstæðum og hafi einhvern grun um hefð og venjur þeirra sem í því landi búa. Að vísu get ég skotið því hér inn sem hæstv. félmrh. skaut að mér áðan. Hann sagði að það væri í raun sama hversu lengi ég byggi í einhverju landi, ég mundi alltaf kjósa íhaldið og rata á þann básinn og má vera að það sé rétt hjá honum.

Ég vil jafnframt að það komi fram að ég er andstæður því að taka upp rafræna kosningu. Við sáum það glögglega í forsetakosningunum í Bandaríkjunum fyrir skömmu að margir ruglast í ríminu ef fara á að beita tækni og flóknum aðferðum við kosningar. Á hinn bóginn höfum við rekið okkur á að flestum þykir einfalt að krossa við bókstafinn með blýanti. Það er einfaldasta og besta reglan. Þetta kunna menn. Ég tel sjálfsagt að þessari reglu sé þess vegna haldið til þess að kosningarréttur manna nýtist og lítil hætta sé á því að atkvæði fari til spillis af því að menn kunna ekki á tæknina. En það er nú eins og það er að sumir eru þannig gerðir að þeir vilja gjarnan halda í það sem vel hefur reynst áður en hlaupið er til. Ég hef ekki fundið það í samtölum mínum við fólk að það sjái neitt athugavert við það þó það mæti á kjörstað eftir venjunni og nýti sér atkvæðisrétt eftir venjunni.

Hitt er auðvitað hálfbroslegt þegar menn eru að blanda þessu saman við það hversu langan tíma tekur að telja. Þá er nú einnig aftur hægt að vísa til Bandaríkjanna. Þetta átti nú allt að vera svo einfalt þar. Allt átti að telja í vélum og allt átti að vera sjálfvirkt. En það tók nú alllangan tíma vegna þess að vafamál voru uppi um hvaða atkvæði væru gild og þar fram eftir götunum. Aðalatriðið er auðvitað að vilji kjósenda komi fram og skiptir þá ekki máli hvort niðurstaða kosninga berst hálfum sólarhring fyrr eða síðar. Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að þessi sjónarmið kæmu fram.

Grundvallarhugsun mín er sú að við eigum að byggja kosningalöggjöf okkar og rétt einstaklingsins á gagnkvæmum samningum við aðrar þjóðir en ekki hlaupa til eftir því sem þar gerist og ákveðið er einhliða af öðrum. Við erum alveg menn til þess að ráða okkar málum sjálf og þurfum ekki að vera með minnimáttarkennd út af því að aðrar Norðurlandaþjóðir vilja halda öðruvísi á málunum en við höfum gert.