Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 14:19:54 (7006)

2002-04-05 14:19:54# 127. lþ. 112.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, Frsm. 2. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Frsm. 2. minni hluta félmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræður um þetta mál enda brýnt að afgreiða það. Ég kemst þó ekki hjá því að segja að ég hef orðið var við að umfjöllun þingsins um þetta mál hefur hreyft við fjölmörgum nýjum þegnum í þjóðfélaginu. Þar á meðal hefur haft samband við mig fólk með erlendan ríkisborgararétt, sumt búið að búa í landinu um áratuga skeið, og sagt reynslusögur sínar af því hvernig tekið hefur verið á móti því hvað þessi réttindi varðar.

Norskur ríkisborgari flutti hingað 16. júlí 1955, nokkrum dögum áður en undirritaður fæddist. Af hugsjóna- eða prinsippástæðum neitaði sú manneskja að taka upp íslenskan ríkisborgararétt vegna þess að skv. þágildandi lögum hefði hún orðið að breyta nafni sínu. Það vildi viðkomandi einstaklingur ekki og þar með naut hún ekki eðlilegra réttinda, ekki einu sinni þeirra réttinda að kjósa til sveitarstjórnar. Hún hefur átt þess kost í þrjú skipti, búin að búa í landinu frá 1955.

Þannig hefur þetta verið, herra forseti. Réttur hefur verið tekinn af þessu fólki í stórum stíl umfram það sem ríkisborgarar okkar hafa notið annars staðar á Norðurlöndunum. Það má spyrja sig þessa: Er okkur stætt á því að búa þannig að fólki sem hefur búið hér í landinu nánast allt sitt líf að það njóti ekki þess réttar að hafa áhrif á stjórn samfélags síns eða stjórn landsins? Er verið að virða grundvallarmannréttindi? Enda hafa menn stundum velt upp þeirri spurningu hvort viðkomandi aðilar gætu ekki neitað að greiða skatta og standa við skyldur gagnvart samfélagi sem þeim er meinað að hafa nokkur áhrif á.

Ég kemst ekki hjá því, herra forseti, að koma þessu að vegna þess að ég verð var við að umræður um þessi mál hafa hreyft við fólki. Mér þykir dapurlegt, herra forseti, að við skulum ekki ná því í þessum áfanga að útrýma með öllu þeim mun sem verið hefur á réttindum norrænna ríkisborgara hér á landi borið saman við þann rétt sem við höfum annars staðar á Norðurlöndunum.

Fyrir nokkru var haldið í Norræna húsinu málþing þar sem m.a. Gunnar G. Schram prófessor hélt erindi um muninn á því að vera Norðurlandabúi á Íslandi og að vera Íslendingur annars staðar á Norðurlöndunum. Ég hygg að sá fyrirlestur hafi verið ansi mikil hrollvekja hvað það varðar að á fjölmörgum sviðum höfum við verið eftirbátar hinna Norðurlandanna í að tryggja gagnkvæmni og að full réttindi færðust með mönnum með búsetu innan Norðurlandanna. Það er mjög miður, herra forseti, þannig að ég neyðist til að gera þessa athugasemd við lokaumfjöllun málsins.