Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 14:33:07 (7011)

2002-04-05 14:33:07# 127. lþ. 112.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég var satt að segja ekki undrandi á ræðu hv. þm. Í upphafsorðum hans gætti pínulítils skætings og síðan fór hann auðvitað rangt með (Gripið fram í: Nú?) og reyndi að lesa annað út úr því sem ég sagði áðan en hægt er að réttlæta.

Hv. þm. var áðan að tala um að hann vildi bjóða velkomna hingað erlenda menn. Ég tók það svo að hann hefði þar vísað til allra erlendra manna. Hafi svo ekki verið skal ég biðjast afsökunar á því og er ekkert við því að segja.

Eins og ég sagði áðan höfum við viljað eiga mjög náið samstarf við Norðurlandaþjóðirnar. Ég rakti einmitt að á þessum gagnkvæmu réttindum byggðist það að við viljum veita þeim meiri rétt en öðrum, t.d. rétt til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum. Þannig liggur málið fyrir. Og ég ítreka það sem ég sagði, ég tel að við getum gert það af því að um gagnkvæm réttindi er að tefla út frá þeim jafnréttishugmyndum sem við höfum.

Ég vil líka ítreka það sem ég hef áður sagt, ég tel ekki eðlilegt að erlendir menn, af hvaða þjóðerni sem þeir eru, hafi rétt til kjörgengis og atkvæðis frá fyrsta degi sem þeir búa í landinu. Mér finnst það of langt gengið. Við það verður að sitja. Hv. þm. finnst það ekki of langt gengið. Mér finnst það hins vegar.