2002-04-05 14:48:11# 127. lþ. 112.5 fundur 705. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (framlenging ábyrgðar) frv. 26/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni skrifað undir þetta nál. efh.- og viðskn. með fyrirvara. Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls lögðum við mikla áherslu á að það gengi með eðlilegum hætti til nefndar til að hægt væri að fá fram upplýsingar frá þar til bærum ýmsum aðilum um hvað gerst hefði frá því að Alþingi samþykkti áður slíka heimild til ríkissjóðs eins og hér hefur verið lýst. Ég held að þær upplýsingar sem við fengum fram í nefndinni sýni að full ástæða hafi verið til að fara yfir málið og fá fram upplýsingar um stöðuna.

Miklar breytingar hafa orðið frá því að Alþingi samþykkti síðast þessa ábyrgð eins og fram kemur í nál. Þar kemur einmitt fram það atriði sem hér hefur verið lýst, að heildarábyrgð ríkissjóðs hefur lækkað úr 27.000 millj. dollara í 2.200 millj. dollara frá því að málið kom fyrst til kasta þingsins. Þar er ekki um neinn smámun að ræða. Ábyrgðin lækkaði úr 2.700 milljörðum ísl. kr. í 220 milljarða ísl. kr. Sú ábyrgð sem íslenska ríkið gengst í hefur því minnkað verulega. Ýmsar aðrar upplýsingar sem komu fram í nefndinni og greint er frá í nál. sýna að þróuninni í þessu máli miðar í rétta átt.

Sá fyrirvari sem við, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og sú sem hér stendur, gerum er að gildistími þessarar ábyrgðar verði ekki til næstu áramóta heldur einungis til 15. okt. komandi. Ástæða þess er einkum sú að það er nauðsynlegt að hafa þessa ríkisábyrgð til eins skamms tíma og mögulegt er. Við það hefur verið miðað í þeim undangengnu tveimur heimildum sem hafa komið til kasta þingsins. Önnur ríki Evrópu og Bandaríkin hafa einungis framlengt þessa ábyrgð núna í tvo mánuði, og fram kom á fundunum að Noregur hefði raunverulega eitt ríkja, svo vitað var um eða upplýst var um á fundunum, framlengt þessa ábyrgð til áramóta.

Reyndar kom fram hjá fulltrúa Sjóvár-Almennra sem mætti á fund nefndarinnar að ástæða væri til að ætla að búið yrði að leysa málið á komandi haustdögum. Við teljum enga ástæðu til að hafa þessa ábyrgð lengur en nauðsynlegt er. Ástæðan til að þetta er framlengt lengur en 60 daga eins og önnur Evrópuríki gera er að þingið gerir brátt hlé á störfum sínum og kemur ekki saman aftur fyrr en í haust. Við teljum rétt að miða við þá tímasetningu að ábyrgðin gildi þar til hálfur mánuður er liðinn af októbermánuði, þ.e. hálfur mánuður af haustþingi. Þá er hægt að meta stöðuna á nýjan leik. Það er ástæðan fyrir því að við flytjum þessa brtt.

Í sjálfu sér á engu að breyta gagnvart stöðunni þó að sá háttur verði hafður á sem við leggjum hér til. Við viljum eins og önnur Evrópuríki og önnur ríki sem hafa þurft að gangast undir þessar ábyrgðir halda þrýstingnum á til að fá lausn á þessu máli og það gerum við best með því að hafa þessar tryggingar til eins skamms tíma og hægt er. Sú er ástæðan fyrir því að við flytjum þessa tillögu.

Við sjáum auðvitað að það er töluvert langt í land enn þá vegna þess að upplýsingar komu fram um að áður en ábyrgðartryggingunum var sagt upp, þ.e. fyrir 11. sept., greiddu t.d. Flugleiðir 27.000 dollara á ári vegna trygginga en hefðu þurft, samkvæmt þeim markaðslausnum sem bjóðast nú, að greiða 60.000--70.000 dollara á mánuði á móti 27.000 dollurum á ári áður sem tryggingu vegna þessarar ábyrgðar.

Herra forseti. Ég vildi skýra þessa brtt. sem við flytjum. Við styðjum auðvitað málið í heild sinni en teljum affarasælla að hafa gildistímann eins og hér hefur verið lýst.