Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 15:45:20 (7026)

2002-04-05 15:45:20# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um að veita heimild fyrir virkjun á Jökulsá á Brú, Jökulsá í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar er komið til 3. og síðustu umræðu á Alþingi. Ítarlega hefur verið rakið í máli þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að allar forsendur væru nú til að þessu máli hefði verið frestað, ekki tekið á dagskrá nema þá með breyttum og nýjum forsendum ef þær kæmu upp. Af umhverfislegum, hagkvæmnis- og arðsemisástæðum er þetta ekki framkvæmd sem verjandi er að ráðast í. Nú síðast hefur komið upp að þær tímaáætlanir og þeir samningar sem íslensk stjórnvöld og íslenskir aðilar höfðu gert við Norsk Hydro í þessu máli hafa líka runnið út í sandinn. Tímarammi og framkvæmdamarkmið sem hafa mótað og stýrt þessu ferli á undanförnum vikum og mánuðum eru fallin um sjálf sig. Tímaferlið er núna í uppnámi þannig að þau meginrök sem stjórnvöld settu fyrir því að keyra málið áfram, að sækja þessar virkjunarheimildir, eru fallin. Þá átti, og á, að sjálfsögðu að viðurkenna orðinn hlut og axla ábyrgð, þá ábyrgð að fresta þessu máli og takast á við önnur og brýnni verkefni, bæði hvað varðar þjóðarheill og líka almenna hagsmuni Austfirðinga sem hér hefur verið bent mjög sterklega á í þessu sambandi.

Því miður, herra forseti, virðist ríkisstjórnin, hæstv. ráðherrar Framsfl. og hæstv. ráðherrar Sjálfstfl., svo heillum horfin og ganga svo á svig við skynsemina að ráðherrar vilja lemja höfðinu áfram við steininn og keyra málið áfram í gegnum þing í algjöru tilgangsleysi og beinum hroka við þá stöðu sem málið er í, beinum hroka við Alþingi í þessum efnum.

Herra forseti. Ég vitna í ágætt og mjög ítarlegt nál. hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. Í hans ítarlega nál. segir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að stórvægileg óafturkræf náttúruspjöll munu eiga sér stað verði af áformum um Kárahnjúkavirkjun. Um yrði að ræða meiri umhverfisspjöll, vatnaflutninga, jarðrask og breytingar á landslagi og náttúru en áður hefur þekkst hér á landi. Þessar gríðarlegu framkvæmdir hefðu í för með sér eyðingu friðlands, röskun beitar- og burðarsvæða hreindýra og skerðingu búsvæða plantna og dýra. Með Hálslóni færu undir vatn einstæðir sethjallar, bæði að jarðgerð og fyrir jarðsögu, svo og sérstök gróðurvistkerfi, í sumarveðursælum háfjalladal fjarri sjó, sem eru hluti af órofa gróðurlendi frá sjó og upp að jökli. Hætta á áfoki frá Hálslóni og aurum þeim sem myndast við og út í lónið er af mörgum fræðimönnum talin veruleg, og stafar jarðvegi og gróðurfari á Vestur-Öræfum mikil hætta af þessu áfoki.``

Og áfram segir í þessu ítarlega og ágæta nál. hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar: ,,Með Hálslóni færi sérstætt landslag undir vatn og yrði veruleg breyting á ásýnd og hrifum Jökuldals og Fljótsdals og þar með Lagarfljóti við vatnabreytingarnar. Stórkostlegar breytingar yrðu á vatnafari jökulánna beggja, þegar annarri væri breytt í mun vatnsminni bergvatnsá löngum stundum að sumarlagi, en framhald hinnar í Lagarfljóti yrði að aurskolugu vatni með öllum þeim breytingum á farvegi þeirra sem því fylgja. Þá hefðu slíkar framkvæmdir þau áhrif að fjölmargir fossar skertust verulega og sumir hreinlega hyrfu.``

Enn fremur segir, með leyfi forseta: ,,Kárahnjúkavirkjun fullnægir ekki nauðsynlegum skilyrðum til þess að hún geti talist sjálfbær og að hægt sé að tala um virkjun í sátt við umhverfið. Með tímanum fyllist Hálslón af aur og gert er ráð fyrir að eftir 100 ár verði afkastageta virkjunarinnar orðin verulega skert. Á endanum hættir lónið að geta tekið við vatnsforða vegna aursöfnunar.``

Virðulegi forseti. Við stöndum ekki frammi fyrir slíkri fátækt eða eymd að við þurfum með fantaskap að ganga á náttúru Íslands, náttúru- og orkuauðlindir okkar, eins og hér er lagt til til þess að við verðum bjargálna. Fjarri því. Við hörmum það að á undanförnum öldum hafi þjóðin þurft að ganga á orkuauðlindir sínar í skógi, viði og kjarri. Við hörmum það og við keppumst nú við að bæta úr því sem forfeður okkar urðu að gera þessum auðlindum þjóðarinnar til að viðhalda lífi í landinu. Þá rak neyðin. En nú er ekki sú neyð fyrir hendi. Þess vegna er á engan hátt verjandi að ganga með þeim hætti eins og hér er lagt til á þá óendurnýjanlegu orkuauðlind sem þarna er um að tefla.

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram á undanförnum árum að þetta væri mikilvæg aðgerð til að efla og styrkja byggð á Austurlandi, og þess vegna yrði að færa svo miklar náttúrufórnir. Ég tek alveg heils hugar undir að mikilvægt er bæði að styrkja atvinnulíf og byggð á Austurlandi, og víðar um land. Vissulega hafa stjórnvöld haft forgöngu um að ala með Austfirðingum gríðarlegar væntingar til þessa eina verkefnis sem hefur byggst á hugmyndinni um Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðju á Reyðarfirði. Henni hefur verið haldið svo stíft að Austfirðingum --- eins og ekkert annað kæmi til greina fyrir þá í sama mæli og þessi virkjun --- að það hefur nálgast hinn harðasta sértrúarboðskap.

Þá hefði viðkomandi stjórnvöldum verið jafnskylt þegar þau sáu að þær áætlanir sem Austfirðingum hafa verið kynntar, eða lagðar á borð og þar með kynt undir væntingum, standast engan veginn að koma þegar með aðrar víðtækar stuðningsaðgerðir til atvinnumála og byggðastyrkingar í þessum fjórðungi. Því miður, virðulegur forseti, virðist þar verulega á skorta. Manni blöskrar að þegar hæstv. ráðherra og formaður Framsfl., 1. þm. Austurl., fer á fjölmennan fund með Austfirðingum skuli höfðinu áfram vera lamið við steininn og slagorðið ,,við berjumst áfram fyrir álveri`` áfram hrópað af kappi. Af nógu er að taka til að styrkja byggð og verkefni á Austurlandi.

Hér hefur verið talað um að styrkja háskólann, stofna háskólasetur á Austurlandi sem gæti einmitt haft að sérsviði náttúrufar, þjóðgarða og þær miklu náttúruauðlindir sem þetta landsvæði hefur yfir að búa. Þekking og þekkingarauður styrkir, efling menntunar styrkir einmitt viðkomandi byggðir og leiðir ungt fólk með góða menntun aftur heim í byggðirnar. Það hefur sannast þar sem það hefur verið reynt.

Ég hefði viljað heyra nú frá þeim sem hér hafa harðast varist og barið sér á brjóst yfir atvinnumálum Austfirðinga að þetta væri málið sem þeir mundu nú leggja þunga áherslu á og berjast fyrir. Ég hefði viljað heyra að þar yrði tekið á með myndarlegum hætti. Ég hefði viljað heyra líka að tekið yrði á í eflingu skógræktar, rannsókna, fræðslu, menningartengdrar skógræktar og skógræktarstarfa.

Skógrækt ríkisins og höfuðstöðvar hennar voru fluttar austur á land í þeim tilgangi að styrkja og efla það hérað sem hefur um áratuga bil haft forgöngu um þróun í skógræktarmálum. Aftur á móti heyrum við þar þær raddir að til standi að flytja þau verkefni sem þar væru betur komin í annan landshluta. Ég hefði viljað heyra hæstv. byggðamálaráðherra segja okkur hvernig hún tekur undir þær hugmyndir sem hæstv. landbrh. hefur viðrað um eflingu skógræktar og skógræktarmiðstöðva í landinu þar sem ráðgert er, samkvæmt hugmyndum sem hann hefur kynnt opinberlega á fundum, að skógrækt skuli ekki lengur byggð upp með sama hætti á Austurlandi heldur sú uppbygging færð í aðra landshluta. Ég hefði viljað heyra hvað hæstv. byggðamálaráðherra hefði um þetta að segja.

Ég hefði líka, herra forseti, viljað heyra afdráttarlausa yfirlýsingu frá hv. þingmönnum Austurlands um að þeir mundu nú berjast fyrir fyrirhuguðum jarðgöngum á Austurlandi sem eru fyrir löngu tilbúin til framkvæmda. Það er rangt sem haft er eftir hæstv. utanrrh. að þau séu enn í hönnun. Þau eru nú í útboði, og hægt hefði verið að flýta vinnu og útboði á jarðgöngum milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar ef vilji hefði verið fyrir hendi. Enn heykjast menn við göngin og segja að framkvæmd þeirra hafi verið háð sölu Landssímans og þess vegna sé ekki hægt að fara í þau. Það er alveg fáránleg staðhæfing, og lýsir miklu ábyrgðarleysi gagnvart hagsmunum þessa landsfjórðungs. Menn tala annars vegar um hundraða milljarða króna verkefni með ríkisábyrgðum og hins vegar veigra menn sér við að standa með myndarlegum hætti að þessari jarðgangagerð sem er þó tilbúin til framkvæmda og kostar aðeins örfáa milljarða króna. Það er dapurlegt, herra forseti, að heyra hve heillum horfnir þingmenn Framsfl. virðast vera og hvernig þeir lyppast niður þegar íbúar þessa svæðis virkilega óska eftir því að þeir taki á honum stóra sínum.

Horfum á þessar tölur og horfum á stærðir. Þessi fjórðungur á mikla möguleika á að efla atvinnu sína í ferðaþjónustu. Ríkið ver nú í þróunar- og markaðsstarf og í ferðamál í landinu einungis um 700 millj. kr. Þeir hafa verið að monta sig af því að sú upphæð hafi verið aukin um 150 millj. kr. á yfirstandandi ári. Þessi atvinnuvegur skilaði okkur á síðasta ári 37 milljörðum króna í gjaldeyristekjur og er sá atvinnuvegur sem vex hraðast og skapar mestu möguleikana vítt og breitt um landið. En landsbyggðin gagnrýnir einmitt að uppbygging og þróunarstarf í ferðaþjónustu virðist enn þá miðast við að suðvesturhornið sé fullkominn miðdepill og þar skuli uppbyggingin fara fram. Þróunarstarf einstaklinga og framsæknin meðal fólks og heimamanna vítt og breitt um landið býr við algjört fjársvelti og við lifum það æ ofan í æ að þróunarstarf sem byggt hefur verið upp með miklum fórnum þessa fólks verður síðan fyrirtækjum og samsteypum á höfuðborgarsvæðinu að bráð sem kaupa það upp þegar þrýtur.

[16:00]

Þessu hefði þurft að snúa við. Hvert ársstarf í fyrirhuguðu álveri og virkjun við Kárahnjúka er talið kosta um 400 millj. kr. í stofnkostnaði. Meðalkostnaður við ársstarf í landinu er annars talinn um 10 millj. kr. Tvö ársstörf í stórverkefninu sem þarna er talað um að eigi að vera atvinnuspursmál fyrir Austfirðinga eru dýrari, þ.e. stofnkostnaðurinn nemur meira en ríkið ver til þróunar- og frumkvöðulsstarfs í ferðaþjónustu í landinu. Telja menn að hér sé skynsemi á ferðinni? Það er dapurt, herra forseti, að stjórnvöld skuli ganga hér til verks með bundið fyrir augun.

Að lokum, herra forseti, vil ég gera framhaldið að umtalsefni. Í stað þess að viðurkenna orðinn hlut og horfa til nýrra lausna, framtíðarlausna í uppbyggingu atvinnulífs í landinu, þar sem auðlindir landsins yrðu nýttar með sjálfbærum hætti til frambúðar skal höfðinu lamið við vegginn, við hinn gráa, kalda vegg raunveruleikans í þessu máli og skipuð ný nefnd til að fara knékrjúpandi að leita að álrisum til að bjarga því sem þessi ríkisstjórn telur sig hafa sett að veði.

Það var skipuð ný nefnd undir forustu ágæts manns, Finns Ingólfssonar, núverandi seðlabankastjóra og fyrrv. hæstv. iðnrh. Ég dreg í efa, herra forseti, að rétt sé að fá til einn af æðstu embættismönnum þjóðarinnar, bankastjóra í Seðlabankanum. Seðlabankinn hefur nýlega fengið yfir sig lög sem fela honum aukið sjálfstæði og aukna ábyrgð í íslensku efnahagslífi. Höfum við ekki fengið nóg af því á undanförnum mánuðum hvernig fléttað hefur verið saman háttsettum embættum og þeim einnig verið falið að framfylgja misvitrum dekurmálum einstakra ráðherra eða ríkisstjórnar? Höfum við ekki fengið nóg af því hve illa það fer saman? Þó ég beri fulla virðingu fyrir og mikið traust til Finns Ingólfssonar og þeirra sem þarna skal skipa í stjórn tel ég að með þessum hætti sé gengið á trúnað og traust sem við eigum að geta borið til stjórnar og vinnu þeirra sem bera ábyrgð á stjórn Seðlabankans. Ég tel misráðið að gera þetta eins og ríkisstjórnin áformar auk þess sem ég tel að þessi nefnd sé algjörlega óþörf. Það á að snúa sér að öðrum verkefnum, byggja landið og atvinnulíf þess upp út frá öðru sjónarhorni en gegnum risastórar virkjanir og risastór álver sem passa engan veginn inn í atvinnulíf okkar.

Virðulegi forseti. Verði þessi virkjunarheimild samþykkt á Alþingi mun ég harma það. Ég mun harma það ef Alþingi gengur fram með þeim hætti að samþykkja virkjunarheimild á lager gagnvart verkefni sem alls ekki er í hendi. Fari svo óska ég þess að það komi aldrei til með að þurfa að nýta hana. Það á að kanna aðrar leiðir við að nýta orku vatnasvæða og náttúru á Austurlandi. Kanna mætti hvort ekki megi nýta þá orku sem þar er í minni virkjanir, í meiri sátt við náttúruna og umhverfið en þessi stórkostlegu óafturkræfu náttúruspjöll sem hér eru til umræðu.

Virðulegi forseti. Ég vona að það verði aldrei ráðist í þessa virkjun.