Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:05:59 (7027)

2002-04-05 16:05:59# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur lokið enn einni af sínum undarlegu ræðum, einkum í þessu máli. Í raun var aðeins síðasti kaflinn í ræðu hans skýr og sannleikanum samkvæmur, að hann er mótfallinn þeim virkjunaráformum sem hér eru til umræðu. En meginhlutann af ræðu sinni notaði hann til þess að kalla eftir aðgerðum og hugmyndum um aðgerðir til að styrkja atvinnulíf á Austurlandi. (ÖJ: Er það undarlegt?) Þar sagðist hann vilja sjá frá stjórnvöldum aðgerðir til að efla menntun, ekki síst á Austfjörðum. Hann sagðist vilja sjá aðgerðir til þess að efla rannsóknir og efla skógrækt. Hann sagðist vilja sjá aðgerðir til að efla ferðamál og sagðist vilja sjá að menn hættu ekki við jarðgöng á Austfjörðum.

Ef þingmaðurinn væri ekki svona blindaður af ofstæki í þessu máli og ef hann læsi þau gögn sem hér eru til vinnslu í þinginu, þar á meðal byggðaáætlun, fengi hann svör við þeirri stefnumörkun sem er til umfjöllunar í þinginu um að efla menntun á landsbyggðinni, efla þar rannsóknir, skógrækt, ferðamál og þar fram eftir götunum, með öðrum orðum svör við þeim spurningum sem hann er að velta upp en fullyrðir að menn séu ekkert að gera í.

Hvað jarðgöng varðar á hv. þm. að vita --- hann veit það --- að menn eru að undirbúa jarðgöng á Austfjörðum, hvort sem af virkjun verður eða ekki.

Síðan fullyrti hv. þm. í upphafskafla ræðu sinnar að Alþingi sýndi hroka, mundi sýna hroka með því að samþykkja þetta. Ég spyr hv. þm.: Er það hroki, er það lýðræðislegur hroki ef yfirgnæfandi meiri hluti hv. alþm. vill samþykkja frumvarpið en örfáir einstaklingar vilja hafna því? Hvar er hrokinn samkvæmt hugmyndum hv. þm. um lýðræðið?