Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:15:08 (7031)

2002-04-05 16:15:08# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég óska sérstaklega eftir því að hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður iðnn., verði viðstaddur umræðuna og hæstv. iðn.- og viðskrh., Valgerður Sverrisdóttir.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill láta þess getið að bæði eru hér í húsi og ég mun sjá til þess að þau komi áður en um langt um líður.)

Ég mun gera hlé á máli mínu þangað til þau eru komin í salinn.

(Forseti (ÍGP): Nú ganga þau í salinn, hæstv. iðnrh. og formaður iðnn.)

Herra forseti. Mjög fróðlegt var að fylgjast með andsvörum hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem hefur verið mjög gefinn fyrir það í umræðum þessa máls að gefa okkur einkunnir fyrir málflutning okkar, án þess þó að taka efnislega á rökum með spurningum sem við höfum beint til hans. Nú ætla ég að gefa honum færi á því að svara nokkrum spurningum sem er ósvarað í málinu.

Við erum að fjalla um frv. sem veitir heimild til stærstu virkjunar sem reist hefur verið á Íslandi og þeirrar dýrustu. Það sem við höfum fengið að heyra frá stjórnarmeirihlutanum, frá hæstv. ráðherra, frá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur og gott ef ekki hv. þm. Hjálmari Árnasyni, þó ég skuli ekki fullyrða um það, er að hér sé um mjög arðsama framkvæmd að ræða. Hv. þm. hefur talað um mjög arðsama framkvæmd og hæstv. ráðherra hefur talað um bullandi arðsemi. Ég hef tekið undir þetta með bullið, en efast stórlega um arðsemina.

Arðsemin ræðst væntanlega af verðinu á rafmagninu sem framleitt yrði við virkjunina. Hvernig má það vera þegar engir samningar eru í hendi, ekki einu sinni samningsaðili, ekki hefur verið samið um sölu á neinu rafmagni, að hægt sé að fullyrða um að framkvæmdin verði bullandi arðsöm? Á hverju er það byggt? Það er viðurkennt og hefur komið fram, bæði hjá hæstv. ráðherra, hjá öðrum talsmönnum ríkisstjórnarinnar og nýbökuðum sendiherra í álmálum, Finni Ingólfssyni seðlabankastjóra, að við séum á núllpunkti. Farið er að tala um nýja samningsaðila. En eftir sem áður leyfa menn sér að koma í ræðustól á Alþingi eða hafa uppi yfirlýsingar um það í fjölmiðlum að við séum að samþykkja framkvæmd sem sé bullandi arðsöm. Hvernig má þetta vera? Þetta er fyrsta spurningin sem mig langar til að beina til hv. þm. Hjálmars Árnasonar.

Þetta verkefni er eitt og hið sama, virkjunin og álverið. Þetta er í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar sem stendur til að reisa eða stóð til öllu heldur að reisa virkjun sem á að framleiða orku fyrir einn kúnna. Og það er álver sem menn hugðust reisa á Reyðarfirði. Nú kann vel að vera að einhver þeirra sem ég hef vitnað til, og þá sennilega Finnur Ingólfsson seðlabankastjóri, sé að tala um bullandi arðsama fjárfestingu fyrir álfyrirtæki. Það má reyndar ráða af viðtali við hann, í DV mun það vera, í gær þar sem seðlabankastjórinn segir að hann hafi trú á því að aðilar í áliðnaði muni velta fyrir sér þessari fjárfestingu af áhuga. Og í framhaldinu segir hann, með leyfi forseta: ,,Það er enginn vafi á að þarna er um mjög arðbært verkefni að ræða. Hvers vegna skyldu slík fyrirtæki ekki hafa áhuga á að taka þátt í arðbæru verkefni?`` spyr Finnur Ingólfsson, nýbakaður samningamaður íslensku þjóðarinnar. Hann á að semja fyrir okkar hönd.

Hvað er það sem gæti gert verkefnið arðbært fyrir viðsemjandann, fyrir álrisana úti í heimi sem nú skal kropið frammi fyrir og þeir beðnir um að koma hingað til lands? Það er væntanlega lágt raforkuverð. Er það ekki það sem mundi gera þetta fyrirtæki arðsamt fyrir þá? Ég hefði haldið það. Eru þetta mennirnir sem eiga að standa vaktina og stunda hagsmunagæsluna fyrir hönd íslensku þjóðarinnar? Þeir tala eins og búið sé að virkja. Þeir ganga ekki á fund væntanlegra viðsemjenda og segja: Ja, það gæti svo farið að við virkjuðum ef ásættanlegir samningar nást. En að sjálfsögðu munum við gæta fullra hagsmuna íslensku þjóðarinnar og tryggja henni hagstætt verð fyrir raforkuna. Nei, svona er dæminu ekki stillt upp. Þetta eru menn sem koma á hnjánum. Ég spyr: Hvers konar hagsmunagæslumenn eru þetta fyrir Íslendinga?

Ekki hefur verið upplýst hvernig raforkuverðið yrði eða hvað það var sem menn þóttust hafa náð samkomulagi um við Norsk Hydro eða kunnu að hafa náð, ég ætla ekki draga það í efa. En menn hafa gert því skóna að það sé einhvers staðar á bilinu 15--20 mill. Hins vegar sýna útreikningar fram á, útreikningar manna sem ég treysti, að til þess að virkjunin yrði arðbær miðað við þær forsendur sem upp hafa verið gefnar, þyrftum við að fá 25--30 mill fyrir orkuna.

Ég vil fá nánari upplýsingar um þessi efni. Og ég hefði nú haldið að fleiri þingmenn en við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði hefðu óskað eftir því að fá fyllri upplýsingar áður en samþykktur er þessi óútfyllti víxill.

Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi koma inn á. Það er um hina bullandi arðsemi og frá báðum hliðum, frá sjónarhjóli íslensku þjóðarinnar og frá álframleiðenda, þyrfti að skýra nánar hvað hér hangir á spýtunni.

Mörgum öðrum spurningum er ósvarað. Það vakti athygli þegar Geir A. Gunnlaugsson upplýsti í viðtali í Kastljósi 26. mars að eitt ágreiningsmálið sem uppi hefði verið lyti að 800 milljón dollara ábyrgðartryggingu, það eru 80 milljarðar kr. Ég óskaði eftir upplýsingum um þetta í efh.- og viðskn. Það hafði ekki nokkur maður áhuga á að grafast fyrir um það. 80 milljarðar! Hver er það sem hefði átt að gangast í ábyrgð? Var það ríkissjóður? Voru það innlendir fjárfestar, lífeyrissjóðirnir? Eða, sem ég held nú fremur, sneri þetta að álfyrirtækinu? Var þetta hugsanlega tilboð Norsk Hydro um að gangast í slíka ábyrgð til þess að fá því framgengt sem vitað er að þeir helst vilja, 15--20% eignaraðild, en ráða engu að síður öllu um gang fyrirtækisins, hafa þar tögl og hagldir og fá samning um raforku til 15--20 ára? Var það þetta? Hvers vegna fáum við ekki upplýsingar um þessi efni? Hvers vegna í ósköpunum er þetta ekki upplýst? Er eðlilegt að frá þessu verði gengið án þess að slíkar upplýsingar liggi fyrir? Ég óska eftir skýringum á þessu og svörum. Ég frábið mér alla einkunnargjöf. Nú vil ég bara svör. Ég er að beina spurningum mínum til hæstv. ráðherra og hv. formanns iðnn.

Þá vil ég einnig fá upplýsingar um tilkostnað Landsvirkjunar. Hver er hann orðinn? Hver er hönnunarkostnaðurinn? Búið er að gera samninga við fyrirtæki upp á milljarða um hönnunarkostnað því eins og menn vita er þegar byrjað að bjóða verkefni út og það er ekki gert nema áður liggi fyrir hönnun. Á grundvelli slíkrar hönnunar er boðið út. Við hvaða fyrirtæki hefur verið samið? Hvað er um háar upphæðir þarna að tefla? Hve marga milljarða? Og hver er tilkostnaður Landsvirkjunar orðinn til þessa?

Þetta síðasta ævintýri hófst fyrir sex árum eða þar um bil. Einhver sagði í fjölmiðlum, hvort það var ekki Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls, að Norsk Hydro væri búið að setja 400 eða 500 milljónir í þetta og það væri til marks um hver alvara væri þar að baki. Hann vísaði þar til fyrirtækis sem er með 2.000 milljarða veltu á ári. Þetta mundi samsvara því að Landsvirkjun léti 3 milljónir --- þar er ársveltan um 13 milljarðar --- í athugun á verkefnum. Þetta eru ekki háar upphæðir. Þegar samningar voru gerðir á sínum tíma um járnblendið við Union Carbide voru gerðir skaðleysissamningar. Það voru gerðir skaðleysissamningar. Þeir samningar voru upp á 8 millj. dollara sem á núverandi gengi væru 800 milljónir. Dollarinn var þá verðmætari. Við erum að tala þar um 1 milljarð.

Hafa einhverjir slíkir skaðleysissamningar verið gerðir hér? Hver er tilkostnaður Landsvirkjunar þegar orðinn? Eru það 8 milljarðar? Þá er ég að tala um hönnunarkostnaðinn. Hver er hann? Og hver er kostnaðurinn við þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í undir lok 9. áratugarins og síðar? Hver er sá tilkostnaður orðinn? Getum við fengið upplýsingar um þetta?

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál að sinni. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að þessi þingfundur verði ekki ýkja langur. Við höfum komið á framfæri meginsjónarmiðum okkar. Ég vil hins vegar minna á að ég hef varað við þessu verkefni á þeim forsendum að um geysilega áhættu sé að ræða og þetta sé mjög varasöm framkvæmd fyrir íslensku þjóðina. Ég hef nefnt þar þrjá stóra áhættuþætti. Ég hef í fyrsta lagi vikið að áhættunni fyrir innlenda fjárfesta. Íslenskir fjárfestar hafa verið hvattir til að koma að þessu, íslenskir lífeyrissjóðir á meðal annarra.

[16:30]

Ég hef sagt: Við skulum læra af reynslunni. Við skulum horfa til járnblendireynslunnar þar sem samningar voru gerðir við Elkem Spigerverket eftir að Union Carbide gekk úr skaftinu og greiddi þá skaðleysisupphæðina. Við gerðum hins vegar samkomulag við Elkem Spigerverket 1976 um að hér yrði reist verksmiðja. Elkem átti þá 45% eignarhlut og íslenska ríkið 55%. Eftir sem áður hafði Elkem Spigerverket tögl og hagldir í fyrirtækinu. Hvernig skyldi það hafa gerst? Jú, það var vegna þess að Íslendingar sátu uppi með ónýtta orku, þó í minna mæli en þetta fyrirtæki býður upp á, og þurftu að koma henni í notkun og létu það yfir sig ganga að gerðir voru samningar þar sem Elkem hafði tögl og hagldir auk þess sem þeir fengu 3%, eins konar umboðslaun, umsýslugjöld. Þeir höfðu þannig milljarða út úr þessari starfsemi en Íslendingar blæddu. Þegar upp er staðið og komið fram á þennan tíma þá hefur það gerst að Elkem er komið með tæplega 73% eignarhlut og hlutur íslenska ríkisins kominn niður í u.þ.b. 10%. Íslenskir fjárfestar eru þar einnig á spýtunni, en hlutur þeirra brann upp. Hvernig gerðist það? Jú, vegna þess að þetta fyrirtæki hefur tvívegis farið á hausinn og í síðasta skiptið, sem var í haust, var hlutaféð niðurskrifað um 75%. Síðan var komið inn með aukna fjárhæð, 600 milljónir af hálfu Elkem, 50 af hálfu íslenska ríkisins. Hvers vegna? Til þess að halda fyrirtækinu inni á Verðbréfaþingi og til að vernda það fé sem Íslendingar höfðu sett í það. En þetta olli því að þeir fjármunir sem Íslendingar höfðu sett í þetta fyrirtæki brunnu upp og við höfum enga samningsstöðu sem lýsir sér í því orkuverði sem þetta fyrirtæki borgar, innan við 10 mill.

Það er svona sem hlutirnir gerast og í þessu felst sú áhætta sem innlendir fjárfestar kunna að standa frammi fyrir.

Í öðru lagi hef ég varað við þeirri áhættu sem ríki og sveitarfélög, eigendur Landsvirkjunar, standa frammi fyrir. Í hverju er áhættan fólgin þar? Hún er fólgin í því að orkuverðið sem einblínt er á og sem er allt of lágt samkvæmt fréttum kann heldur ekki að standa. Vera kann að það stæðist ekki heldur. Hvers vegna? Vegna þess að orkuverðið er samtengt verði á áli og gengið var út frá því að álverðið haldist um næstu framtíð 1.550 dollarar á tonnið. Núna er þetta álverð um 1.400 dollarar og ætla má að það fari lækkandi. Ég get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um það. Það getur enginn fullyrt um það. Menn byggja hins vegar í senn á líkindareikningi sem horfir aftur í tímann, byggir á þróun aftur í tímann og síðan eru framsýnir menn að velta því fyrir sér hvað framtíðin beri í skauti sér.

Það sem blasir við er að álframleiðslan, frumframleiðslan, er að færast til Afríku og Asíu, Suður-Afríku, Mósambík, Víetnam, Kína. (HjÁ: Kanada, Noregur.) Já, þar eru aðrir hlutir að gerast. (HjÁ: Þar eru álver líka.) Þar eru aðrir hlutir að gerast. Í þeim heimshluta er að eiga sér stað aukin endurvinnsla, (HjÁ: Líka ný.) aukin endurvinnsla. Sérfræðingar gera því skóna að samruninn við þýska fyrirtækið VAW muni leiða til þess að Norsk Hydro fari í auknum mæli inn á þá braut. Þar þarf miklu minni orku, 5%, þ.e. í endurvinnslu á áli. En frumframleiðslan mun fara til Kína og Suður-Afríku og víðar, nærri báxítnámunum og ódýru vinnuafli, og þess vegna mun álverðið fara lækkandi. Svo er annað að gerast. Kínverjar hafa flutt inn ál. Talið er að eftir þrjú til fimm ár verði þeir útflytjendur á áli. Gera menn sér grein fyrir því hve stærsta virkjun sem Kínverjar eru að reisa nú um stundir er stór? Hún er 15.000 megavött. Hún er tuttugu sinnum stærri en fullbyggð Kárahnjúkavirkjun. Hver einasti hverfill eða túrbína er jafnstór og Kárahnjúkavirkjun, eða 750 megavött. Þarf ekki svolítið að horfa á þessar staðreyndir? Þurfum við ekki að velta vöngum yfir afleiðingum þess að Kínverjar eru núna að ganga í Alþjóðaviðskiptastofnunina, WTO, og hvaða áhrif það hefur á viðskipti þeirra í heiminum þegar þeir búa við hagstæðari skattakjör og tollakjör en verið hefur? Þarf ekki að ræða þetta? Þarf ekki að skoða þetta?

Það er í þessu sem áhætta íslenska ríkisins og Landsvirkjunar felst. Það þýðir ekkert að vísa í einhverjar Monte Carlo-formúlur eða hvað hann nú heitir líkindareikningurinn sem menn hafa byggt á og hvílir á fortíðinni.

Í þriðja lagi hef ég vísað í þá áhættu sem við erum að taka fyrir efnahagslífið, þ.e. að þessi framkvæmd sé svo risavaxin að hún rúmist ekki í íslensku efnahagslífi. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma núna. Ég ætla að ljúka máli mínu einfaldlega vegna þess að við höfum gert um það samkomulag að ljúka þingfundi von bráðar. En ég get alveg fullvissað hæstv. forseta um að ég hef nóg enn til málanna að leggja.

En að lokum þetta: Ég tel að þessi framkvæmd sé algerlega óaðgengileg, hún sé mjög óráðleg og varasöm á efnahagslegum forsendum. En síðan er hitt að sjálfsögðu, eins og ég hef margoft bent á, að ég er andvígur þessari virkjun vegna þeirra óafturkræfu spjalla á náttúru Íslands sem hún hefði í för með sér.