Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:38:28 (7032)

2002-04-05 16:38:28# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi til mín fyrirspurnum og bað um að ekki yrðu gefnar einkunnir. Tilefni hans var andsvar mitt við hv. þm. Jón Bjarnason. Andsvar mitt við hv. þm. Jón Bjarnason byggði á þeirri fullyrðingu hans að stjórnvöld hefðu enga byggðastefnu og væru ekki með neinar aðgerðir fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni. Ég hrakti það einfaldlega. Andsvar mitt við hv. þm. byggðist líka á því þegar hann talaði um að það væri verið að sýna Alþingi hroka. Lái mér hver sem vill þó ég dragi þá fullyrðingu mjög í efa þegar yfirgnæfandi meiri hluti Alþingis vill taka þessa pólitísku ákvörðun. Það er lýðræðisleg niðurstaða, en ekki hroki.

Hvað varðar arðsemina og verðið þá segir hv. þm. að engir samningar hafi legið fyrir. Það er ekki alveg rétt. Fyrir lágu samningsdrög sem menn höfðu meira að segja sett stafi sína á, byggð á ákveðnum forsendum. Til bæði efh.- og viðskn. og iðnn. komu ýmsir sérfræðingar. Það var a.m.k. mat átta nefndarmanna af níu í hv. iðnn. að treysta þeirri ráðgjöf sem þeir sérfræðingar kynntu þarna, m.a. á grundvelli þessa samnings.

Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir því og reikna ekki með því að skoðun hv. þm. muni breytast. Þetta var niðurstaða okkar og okkar mat. Ég vek líka athygli á því að hér er verið að fjalla um leyfi Alþingis til hæstv. iðnrh. sem mun ekki gefa út virkjunarleyfi fyrr en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ég vek líka athygli á því að Landsvirkjun mun ekki leggja út í framkvæmd nema viðunandi samningar náist, viðunandi fyrir Landsvirkjun og sem skila henni arði. Fyrr verður virkjunarleyfið ekki gefið út af framkvæmdarvaldinu. Hv. Alþingi er einungis að vinna sína heimavinnu sem er eðlilegt, hinn almenna ramma. Síðan koma hin almennu skilyrði sem framkvæmdarvaldið sér um.