Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:40:44 (7033)

2002-04-05 16:40:44# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:40]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ef við ætluðum nú að sýna þessari þjóð virðingu þá væri farið með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við höfum rætt það.

Varðandi Landsvirkjun og þá staðhæfingu að Landsvirkjun muni ekki fara út í neina framkvæmd nema samningar liggi fyrir. Það er alveg rétt að það var fullyrt að það ætti ekki að gera það. En annaðhvort vorum við slegin blindu eða leggjum einhvern annan skilning í framkvæmdir þegar við vorum á ferð á þessum slóðum sl. haust og fylgdumst með framkvæmdum á vegum Landsvirkjunar á þessu svæði.

Síðan er hitt. Það hafa verið gerðir samningar upp á milljarða og það hefur verið framkvæmt fyrir milljarða. Ég hef spurt: Hve marga? En að leyfa sér að koma hingað upp og segja að Landsvirkjun muni ekkert gera fyrr en samningar liggi fyrir er harla undarlegt svo ekki sé tekið djúpt í árinni þegar þessir samningar hafa verið gerðir og þessi fjáraustur hefur þegar verið hafinn fyrir mörgum árum. Ég spyr aftur hv. formann iðnn.: Upp á hve háar upphæðir eru þessir samningar og hver er þessi tilkostnaður Landsvirkjunar þegar orðinn? Eru það 8 milljarðar? Og hvað af því, ef svo væri --- ég tel að það sé þar um bil --- hvað af því er hönnunarkostnaðurinn? Hafa einhverjir skaðleysissamningar verið gerðir? Ég óska eftir upplýsingum um þetta.