Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:42:42 (7034)

2002-04-05 16:42:42# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:42]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi einnig spurningu til mín um arðsemi álversins og fjallaði nokkuð um að álverð mundi haldast óbreytt í heiminum að öllum líkindum. Í þeim samningsdrögum sem fyrir lágu er gert ráð fyrir því að álverð muni lækka í heiminum og það er byggt á spá helstu sérfræðinga í álheiminum á því. Það er nú einu sinni svo að báðir samningsaðilar hagnast og allir sem að málinu koma. Því er spáð á grundvelli þeirra samningsdraga sem lágu fyrir að Landsvirkjun mundi hagnast verulega af þessu máli og virkjunin afskrifuð á 25--30 árum. Hún væri þá skuldlaus. Því er spáð að þjóðfélagið muni hagnast á því með aukinni þjóðarframleiðslu um 1%, byggðir landsins muni styrkjast, ekki síst á Austfjörðum, útflutningsverðmæti aukast um 14%. Það er auðvitað allt saman mjög jákvætt ef það gengur eftir.

Að sjálfsögðu er líka hagstætt ef álverið og eigendur álversins hagnast á þessu líka. Það er, herra forseti, hið besta mál ef allir aðilar sem að því koma munu hagnast. Út á það ganga viðskipti yfirleitt.

Þingmaðurinn spyr um kostnað. Það er alveg ljóst að Landsvirkjun hefur lagt í verulegan kostnað við þetta. Ég hygg að þær tölur séu á milli 2 og 3 milljarðar. Það er engin hönnun. Það er rangt hjá hv. þm. að búið sé að bjóða út hönnunina. Því hefur verið slegið á frest vegna óvissunnar. Hins vegar byggir megnið af þeim kostnaði sem til er fallinn á kostnaði vegna undirbúningsrannsókna. Og hvers vegna er lagt í þær undirbúningsrannsóknir? Það er á grundvelli laga sem m.a. hv. þm. sjálfur stóð að að samþykkja, því þegar framkvæmdaaðili vill láta rannsaka hugsanlegt virkjunarstæði þarf hann sjálfur að bera kostnaðinn af því. Það er það sem Landsvirkjun hefur gert, en fær þann kostnað aftur ef af framkvæmd verður.