Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:54:05 (7037)

2002-04-05 16:54:05# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:54]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér gæti ég líka farið með ljóð. Það er alltaf gaman að því og hin íslenska þjóð á mörg fögur ljóð. Orðin afl og kraftur komu bæði fyrir í því ljóði sem hv. þm. las hér. Þetta mál gengur einmitt mjög út á afl og kraft og orku. Ég ætla ekki að gera mér vonir um að við getum verið sammála í lok umræðunnar en örfá atriði ætla ég að nefna.

Örlítið hefur verið talað um rammaáætlun. Kárahnjúkavirkjun er hluti af vinnu rammaáætlunar. Vinna vegna Kárahnjúkavirkjunar er hins vegar lengra komin en hvað varðar flestar aðrar virkjanir, og rannsóknir ítarlegri. En sannleikurinn er sá að í sambandi við þetta verkefni kemur engin önnur virkjun til greina en Kárahnjúkavirkjun og þess vegna er málið þannig vaxið sem raun ber vitni. Auk þess vil ég geta þess að rammaáætlun er ekki svo nákvæm vinna að hægt sé að byggja ákvörðun nákvæmlega á þeirri vinnu. Hins vegar er hún mikils virði, ekki síst í sambandi við áætlanagerð til framtíðar.

Hv. þm. spurði í lokin hve miklu meiri áform ég hefði uppi um að stækka stóriðjuver. Í sjálfu sér liggur ekki fyrir nákvæm stefna í þeim efnum á þessari stundu enda byggist þetta ákaflega mikið á því hvað fjárfestar vilja gera og hversu mikill áhugi er fyrir stækkun þessara iðjuvera. Hins vegar er ljóst að við höfum þó nokkur viðbótartækifæri til að virkja fallvötnin. Einhvers staðar liggja samt mörkin, það held ég að sé nokkuð ljóst. Þegar talað er um að 15--20% séu nýtt er vissulega tekið tillit til þess að ekki allt verði virkjað en ég geri mér alveg grein fyrir því að það er pólitískt umfjöllunarefni hvar línan liggur.

Hv. þm. nefndi Fljótsdalsvirkjun og það er rétt hjá henni að um þá virkjun liggur fyrir heimild. Hún var afgreidd frá Alþingi Íslendinga með öllum atkvæðum í tíð Hjörleifs Guttormssonar sem iðnrh. Saga hans í sambandi við virkjanamál er athyglisverð og kannski verður hún einhvern tíma rifjuð upp. Ég held að mörgum muni þykja barátta hans athyglisverð. (ÖJ: Kannski ástæða til að lengja svolítið umræðuna.) Ég vona að mér leyfist að nefna þetta. Þetta getur ekki verið svo viðkvæmt mál. En ég er ekki að vekja upp umræðuna. Ég held að hann hafi ekki þurft að skammast sín fyrir það. Hann gegndi starfi iðnrh. um tíma. (ÖJ: Og á að njóta sannmælis.) Og nýtur eflaust sannmælis.

Það sem ég vildi segja um verðmæti lands er að það að meta land er mjög flókið viðfangsefni. Engar viðurkenndar aðferðir eru til hvað það varðar en þær eru í þróun og í tengslum við rammaáætlun hafa verið gerðar tilraunir til að meta land til verðmæta. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar um efnahagslegt umfang þjóðgarðs norðan Vatnajökuls, sem kom út í ágúst 2001, er ákveðin niðurstaða. Hún er sú að verði svæðið gert að þjóðgarði, og virkjun verði að auki við Kárahnjúka, minnki verðmæti landsins um 240 milljónir á ári miðað við að ekkert verði gert. Hins vegar skulum við hafa í huga að með því að virkja og auk þess stofna til þjóðgarðs er verðmætið um 10 milljarðar á ári. Það er nokkuð ljóst að ef við horfum bara á efnahagslegan þátt málsins er hagkvæmt að fara út í þessa framkvæmd. Svo geta menn alltaf velt fyrir sér og haft á því skoðanir, sem eru þó meira og minna byggðar á áætlunum og ekki mjög nákvæmar, hversu mikið ferðaþjónustan gefur. Hún gefur vissulega mikla fjármuni en að mínu mati er virkjun arðbærari kostur.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um svæðisskipulagið og í andsvari við framsöguræðu í 1. umr. hélt hv. 17. þm. Reykv. því fram að Kárahnjúkavirkjun væri í hróplegri andstöðu við svæðisskipulag miðhálendisins og spurði hvort ég hygðist beita pólitískum þrýstingi og valdi til þess að breyta svæðisskipulaginu. Í svari mínu vísaði ég til þeirra orða í greinargerð svæðisskipulagsins að gert sé ráð fyrir að skoðaðir verði til hlítar möguleikar á að virkja saman Jökulsá á Brú, sem sagt Kárahnjúkavirkjun, og Jökulsá í Fljótsdal með þeim hætti að Kárahnjúkalón geti nýst sem miðlun fyrir bæði vatnasviðin og þar með talið Hálslón. Ég tel að vinna við breytingar á svæðisskipulagi sé í réttum farvegi og í samræmi við þau sjónarmið sem um það hafa ríkt.

[17:00]

Að síðustu vegna orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að Finnur Ingólfsson seðlabankastjóri eigi að semja fyrir hönd Íslendinga, þá er það ekki alveg nákvæmt. Málið er að sú nefnd sem skipuð hefur verið hefur fyrst og fremst það verkefni að þreifa á þeim möguleikum sem til staðar kunna að vera hjá erlendum álfyrirtækjum, en ekki, a.m.k. hefur ekki verið tekin um það ákvörðun á þessari stundu, að sú nefnd eigi að ganga svo langt að ef til samningaviðræðna komi verði það þeir aðilar sem taki þátt í því.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson talar mikið um verðið, það verð sem Landsvirkjun telur sig þurfa til þess að framkvæmdin sé arðbær og telur að þurfi 25--30 mill. Það held ég sé ekki rétt hjá honum. Þetta er málefni sem efnahagssérfræðingar okkar hafa ekki verið alveg sammála um. Það er náttúrlega mismunandi hvaða forsendur menn gefa sér þegar þeir reikna þetta, hvort þeir reikna álverðið bókstaflega alveg niður í heiminum eða hvort þeir reikna það þannig að á einhverju stigi fari álverð ekki lengra niður vegna þess að markaðurinn sjái til þess að halda ákveðnu verði. Auðvitað byggist þetta á líkindareikningi að einhverju leyti, en miðað við það sem hefur gerst fram að þessu held ég að sé hægt að halda því fram að Landsvirkjun hafi ekki gert slæma samninga.

Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur svarað ýmsum spurningum sem komið hafa fram og tíminn er naumur, en ég ætla samt að segja í lokin að mér finnst hv. þingmenn gera of mikið úr því að Alþingi eigi nánast að vera samningsaðili í þessum efnum. Auðvitað er Alþingi það ekki. Það finnst mér mikilvægt að komi hér fram og þess vegna verður framkvæmdin að vera á þann veg að Alþingi sé á grundvelli upplýsinga sem liggja fyrir hverju sinni að taka ákvörðun um hvort það vilji heimila viðkomandi virkjun eða ekki. Eins og ég lét koma fram einhvern daginn í vikunni er það svo að samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir um ný raforkulög, þá verður það ekki lengur verkefni Alþingis að taka slíka ákvörðun vegna þess að ekki er litið svo á að þetta sé pólitísk ákvörðun í raun heldur þurfi að byggja á ákveðnum upplýsingum og að sjálfsögðu er mikilvægt í þeim efnum að við höfum lög um umhverfismat og það skiptir máli. Eins er ég sannfærð um að sú vinna sem nú fer fram í sambandi við rammaáætlun mun verða mikið gagn til aðstoðar okkur í framtíðinni hvað það varðar að velja virkjunarkosti.

Ég þakka fyrir umræðuna og vonast til þess að sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar verði landi og þjóð til framdráttar.