Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 10:38:34 (7042)

2002-04-08 10:38:34# 127. lþ. 114.10 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv. 32/2002, GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[10:38]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get nú ekki orða bundist og vil andmæla örlítið ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Það er auðvitað ekki svo að fara eigi að dreifa líkum um landið. (Gripið fram í.) það er verið að tala um að dreifa ösku um landið. Í öðru lagi þótti okkur í hv. allshn. líka allt í lagi að fólk gæti ákveðið þetta sjálft. Við viljum ekki taka það sjálfsforræði af fólki.

Fyrir það fyrsta eru nú ekki brenndir nema um 10% þeirra sem deyja. Það er afar lágt hlutfall miðað við það sem gerist annars staðar í heiminum, afar lágt. Við erum að tala um að kannski einn af þessum 10% mundi vilja láta dreifa ösku sinni t.d. yfir öræfi eða þess vegna í sitt græna tún í garði sínum. Mér finnst fólk tala eins og það muni ganga um í einhverjum gjóskulögum þannig að ekki verði þverfótað fyrir ösku látinna manna á öræfum og úti um allt.

Mér finnst þetta byggjast á ákveðnum misskilningi. Við vitum meira að segja að þeir sem látnir eru og vildu láta brenna sig lenda í því að þeir eru ekki brenndir af því að ættingjar eru á móti því. Kirkjan var einmitt að vara aðallega við þessu, þ.e. að það er yfirleitt alltaf ósætti um að láta brenna sig.

Mér finnst þetta allt í lagi ef fólk gengur frá því skilmerkilega og skriflega áður en það deyr að það vilji láta brenna sig og dreifa ösku ösku sinni. Vitið þið að mér finnst það bara sjálfsagt mál að slíkt sé leyft.