Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 10:40:20 (7043)

2002-04-08 10:40:20# 127. lþ. 114.10 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv. 32/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[10:40]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir talar um þetta mál af ástæðulausri léttúð finnst mér. Maður gæti svo sem stundað sömu léttúðina og hv. þm. er hér að opna fyrir. Ef viðkomandi ætti að vera búinn að ganga frá því skriflega áður en hann dæi að hann vildi láta brenna sig þá gæti það nú stangast á við reglur dóms- og kirkjumrh., þ.e. annars vegar óskir hans og hins vegar reglur eða samþykktir dóms- og kirkjumrh. Þá er ekki víst að hann geti beðið með að deyja þangað til sá úrskurður lægi fyrir þannig að hann væri sáttur við að dreifast með þeim hætti sem dóms- og kirkjumrh. úrskurðar að lokum. Hv. þm. hefur eiginlega ekki áttað sig á því hvers konar mál hér er á ferðinni. Ég vil bara benda hv. þm. á það, virðulegi forseti.

Samkvæmt 1. gr. frv. á 4. mgr. 7. gr. laganna að orðast svo, með leyfi forseta:

,,Dóms- og kirkjumálaráðherra getur heimilað, samkvæmt nánari reglum er hann setur, að ösku verði dreift yfir öræfi eða sjó, enda liggi fyrir ótvíræð ósk hins látna ...``

Hinn látni getur ekki sett fram neina ósk eftir að hann er látinn. Mér vitanlega er það útilokað. Ég hef aldrei vitað til þess að látinn maður geti sett fram ósk nema í draumi eða á annan hátt slíkan.

Virðulegi forseti. Mér finnst að þetta frv. sé keyrt fram fremur af gáleysi en af virðingu og skynsemi gagnvart umgengni við látið fólk. (Gripið fram í: Hvar er séra Karl?)