Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 10:43:14 (7045)

2002-04-08 10:43:14# 127. lþ. 114.10 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv. 32/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[10:43]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ekki hafa komið fram margar óskir, en það er vegna þess að þetta hefur heldur ekki verið leyfilegt. Það verður fróðlegt að vita hvernig hæstv. dóms- og kirkjumrh. ætlar að búa út sínar reglur því að ég býst við að kannski þurfi leyfi landeigenda, þ.e. að ósk hins látna sé ekki nóg heldur þurfi viðkomandi landeigandi líka að samþykkja hana, sá sem á landið sem á að dreifa öskunni yfir. Því er, held ég, eins gott í sambandi við meðferð málsins að hér liggi fyrir hvers konar reglur dóms- og kirkjumrh. hugsar sér að setja.

Virðulegi forseti. Ég ítreka því í ljósi þess að þetta hefur ekki verið vandamál og að greftrun, grafarró og hvernig við búum látnu fólki umgjörð er almennt nokkuð viðkvæmt mál, að alveg ástæðulaust er að opna fyrir einhverja leið, möguleika eða ferli sem getur boðið upp á deilur eða óánægju. Þetta er í góðu horfi. Það á ekki að opna fyrir svona mál fullkomlega að óþörfu.