Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 10:49:48 (7049)

2002-04-08 10:49:48# 127. lþ. 114.10 fundur 371. mál: #A kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (dreifing ösku, kirkjugarðaráð o.fl.) frv. 32/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[10:49]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hef litlu við þetta að bæta. Ég get litlu svarað hv. þm. Jóhanni Ársælssyni öðru en því að ég tel ekki skynsamlegt að gefa hér nokkuð rúma lagaheimild til að dreifa ösku látinna um lönd, vötn eða sjó. Þó svo að dóms- og kirkjumrh. sé falið að setja um það reglur er það frá mínum sjónarhóli ekki rétt. Ég tel að við eigum að halda í heiðri þær greftrunarreglur sem við búum við. Við leggjum mikla áherslu á að ná jarðneskum leifum ástvina okkar, vina eða samborgara sem látast, til að þeir geti fengið legstað og eðlilega útför og kveðju. Við leggjum mikla áherslu á það. Ég tel að við eigum líka að leggja áherslu á að sú lokaumgjörð sem við búum hinum látnu verði áfram í nokkuð föstum, ákveðnum, samfélagslegum skorðum.