Fasteignakaup

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 10:52:35 (7050)

2002-04-08 10:52:35# 127. lþ. 114.16 fundur 253. mál: #A fasteignakaup# frv. 40/2002, Frsm. ÞKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[10:52]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um fasteignakaup.

Það var mikill einhugur í nefndinni þegar fjallað var um þetta mál enda er um afar vandað mál að ræða. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. dómsmrh. fyrir frumkvæðið að því að láta semja jafnviðamikinn lagabálk og þetta frv. gengur út á og hins vegar Viðari Má Matthíassyni lagaprófessor, en hann sá um að semja þetta annars ágæta frv.

Á Íslandi gilda ekki sérstök lög um fasteignakaup. Reglum um lausafjárkaup og almennum reglum kröfuréttar hefur verið beitt með ýmsum hætti eftir því sem við hefur átt en sú réttaróvissa hefur sætt gagnrýni á síðustu árum og hafa kostnaðarsöm málaferli verið algeng. Við samningu frv. var tekið mið af lögum um lausafjárkaup enda ótvíræður kostur að samræmi sé milli reglna um lausafjárkaup og fasteignakaup. Þau lög voru að norskri fyrirmynd og var því talið rétt að hafa norsk lög á þessu sviði jafnframt til hliðsjónar.

Efni reglna frumvarpsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi lúta ákvæði þess að réttarsambandi kaupanda og seljanda. Um er að ræða kröfuréttarlegar reglur sem einkum mæla fyrir um skyldur kaupanda og seljanda og hverju það varði ef þær eru ekki efndar. Í öðru lagi eru reglur um ástandsskýrslur sem er algert nýmæli í íslenskri löggjöf.

Nefndin lítur svo á að afar brýnt sé að lögfesta reglur um fasteignakaup til að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkt hefur á þessu sviði og telur að málaferlum muni fækka í kjölfarið. Nefndin mælir því með að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Í fyrsta lagi telur nefndin heppilegra að fjallað verði um greiðslumark bújarðar sem fylgifé fasteignar samfara endurskoðun á jarðalögum sem nú á sér stað í landbúnaðarráðuneytinu og leggur því til að 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins falli brott. Þá ræddi nefndin ítarlega reglur VIII. kafla frumvarpsins um ástandsskýrslur. Nefndinni bárust ábendingar um þær sem hún telur þurfa frekari skoðunar við og m.a. þurfi að kanna nánar reynslu af slíkum skýrslum annars staðar á Norðurlöndunum. Nefndin leggur því til að VIII. kafli frumvarpsins falli brott. Hins vegar telur nefndin reglurnar afar áhugaverðar og er sammála um að þær eigi að koma til umfjöllunar hjá nefndinni strax á næsta þingi. Þá er lagt til að lögin taki eingöngu til þeirra samninga sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra. Þetta sem sagt ákveðið lagaskilaákvæði. Loks leggur nefndin til smávægilegar orðalagsbreytingar.

Ég vil aðeins koma inn á ástandsskýrslurnar. Við ræddum þann kafla, sem er í raun merkileg tillaga í sjálfu sér, mjög vel í nefndinni. Við ræddum kostnað ástandsskýrslanna og það er alveg ljóst að miðað við þau skilyrði sem gerð eru til ástandsskýrslna samkvæmt frv. mundi kostnaður hugsanlega hlaupa á hundruðum þúsunda. Gestir sem komu á fund nefndarinnar voru að tala um á bilinu 300--500 þús. sem er auðvitað allt of há fjárhæð. Okkur er kunnugt um reynslu Norðmanna, sem gera reyndar ekki jafnítarlega kröfu til umfangs ástandsskýrslna. Þar hleypur kostnaður á bilinu 3.000--6.000 norskar kr., sem eru þetta 30--60 þús. Þar erum við í raun að tala um allt annan hlut en í þessu frv. Eigi að síður, herra forseti, er um mjög athyglisverða hugmynd að ræða og þess vegna ítrekar nefndin ósk sína um að farið verði betur yfir þetta í sumar og nefndin fái þessar tillögur aftur til umfjöllunar á næsta þingi. Þessar tillögur geta stuðlað að auknu réttaröryggi í samskiptum kaupenda og seljenda á þeim mikilvæga markaði sem fasteignamarkaðurinn er.

Herra forseti. Nefndin og þeir sem skrifa undir þetta þingskjal --- þar er enginn fyrirvari gerður --- leggur til að frv. verði samykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.