Flokkun og mat á gærum og ull

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:41:22 (7073)

2002-04-08 11:41:22# 127. lþ. 114.20 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv. 48/2002, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í lögum um flokkun og mat á gærum og ull er annars vegar talað um gærumatsmenn og hins vegar um ullarmatsmann, eftirlitsmann með ullarmati.

Mér sýnist að það sem er verið að fella út hér sé:

,,Landbúnaðarráðherra ræður eftirlitsmann með ullarmati samkvæmt tillögu ullarmatsnefndar.``

Verkefni hans, það sem hann á að skoða er sem hér segir, með leyfi forseta:

,,Öll óþvegin ull, sem framleidd er í landinu og selja á, skal flokkuð og metin eftir lit og gæðum samkvæmt flokkunar- og matsreglum sem landbúnaðarráðherra setur í reglugerð að fengnum tillögum ullarmatsnefndar.

Og svo segir:

,,Öll þvegin ull, sem selja á, skal metin af ullarmatsmönnum ef kaupandi eða seljandi óskar þess. Landbúnaðarráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um útflutning ullar.``

Ég verð, virðulegi forseti, að taka undir þau orð hv. þm., formanns landbn., að hér er um hreina og klára ofstjórn að ræða. Auðvitað hefði átt að taka þessi lög og fella þau úr gildi. Því í ósköpunum á Alþingi að fjalla um þetta og setja svo nákvæmar reglur í lög? Um þetta ætti að vera rammalöggjöf sem heimilar ráðherra að setja reglugerð og ullarmatsmaður á að starfa á vegum Bændasamtakanna og afurðastöðvanna, söluaðila. Þetta snýst ekki bara um 8 millj. Þetta snýst um breytta stjórnarhætti.