Búnaðargjald

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:07:19 (7084)

2002-04-08 12:07:19# 127. lþ. 114.22 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa hér langt mál. Ég ætla aðeins að ítreka að við skrifum undir nál. sem fylgir frv. frá nefndinni án fyrirvara og teljum ekki ástæðu til annars en að verða við þeim óskum sem komið hafa fram frá Bændasamtökunum um að breyta þessu hlutfalli þó að það geti ekki orðið fyrr en þá í fyrsta lagi á næsta ári því að þetta getur aldrei orðið nema óbreytt á þessu ári.

Í framhaldi af þessu má kannski segja að svona gjöld sem ein sérstök stétt er að leggja á sig til þess að auka veg stéttarinnar á hinum ýmsu sviðum, sem vissulega hefur verið gert með þessu gjaldi, það hefur vissulega verið notað til góðs --- ég fæ ekki alveg skilið hvers vegna slíkt gjald þarf að fara í gegnum Alþingi. Mér finnst þetta vera svipað og ákveðin stéttarfélög hafa nú verið að ákveða að taka t.d. 1% af launum um margra ára skeið, af launum umbjóðenda sinna, og leggja í t.d. kjaradeilusjóð. Það hefur ekki þurft að fara í gegnum Alþingi hingað til þó að það sé auðvitað hið þarfasta framlag. Það mætti nefna margar fleiri slíkar álögur sem ákveðnar stéttir ákveða að setja á sig til hagsbóta fyrir stéttina. (Gripið fram í.) Ja, hér er minnt á framlag frá ríkinu sem Samtök iðnaðarins fái, sem hefur nokkuð verið til umræðu undanfarið. En ég verð að segja að mér finnst að við mættum í heild hugsa okkur svolítið um hvort ríkið á áfram að vera með puttana í þessu öllu.

Ég sé t.d. að ýmsir líta á búnaðargjöldin, sem ríkið sér um að innheimta og er svo aftur úthlutað samkvæmt fyrir fram ákveðnum reglum, sem opinbera styrki til bænda og Bændasamtakanna sem þau eru náttúrlega ekki. Það er undirrót slíks misskilnings. Þetta er t.d. tekið með í tölur núna þar sem verið er að bera saman opinber framlög til landbúnaðar á Íslandi og í öðrum löndum bara út af því að við erum með þessa sérstöku löggjöf og þetta er innheimt á þennan hátt til endurúthlutunar.

En í þessu tilviki höfum við, fulltrúar Samfylkingarinnar í hv. landbn. skrifað upp á frv. Það er einnig eitt annað atriði sem frv. fjallar um, að fyrir hefur komið að mér skilst, að þetta gjald hafi verið lagt jafnvel oftar en einu sinni á sömu framleiðsluna og þar að auki lagt á þætti í framleiðslunni sem var aldrei meiningin að búnaðargjald legðist á, t.d. kostnað og virðisauka af framleiðslunni og eins kaupverð lífdýra sem eru keypt til áframeldis. Þetta er skýrt með frv. og ætti þá ekki að þvælast fyrir mönnum meir.

Ég styð frv. eins og það liggur fyrir en ég legg til að það verði hugsað upp á nýtt hvort ríkið á sjálft að vera að innheimta slík gjöld.