Hollustuhættir og mengunarvarnir

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:18:01 (7088)

2002-04-08 12:18:01# 127. lþ. 114.24 fundur 638. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.) frv. 98/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:18]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. að á listanum sem verður sem fylgiskjal með þessum lögum þar sem fram kemur hverjir skuli hafa starfsleyfi, gefið út af heilbrigðisnefnd, er m.a. talin upp verslun með vörur sem innihalda hættuleg efni og eiturefni og verslun með fegrunar- og snyrtiefni. Það er nýmæli að kveða þurfi á um starfsleyfi en m.a. ber að líta til þess að verið er að selja t.d. snyrtivörur í apótekum þar sem menn handfjatla líka ýmis hættuleg efni. Þess vegna er talið eðlilegt að menn hafi einn aðila sem kemur að eftirliti með þessu en síðan hefur Lyfjaeftirlitið einnig með eftirlit með apótekum að gera. Rökin eru sem sagt þau að menn vilja ná utan um eftirlitið með því að láta Hollustuverndina bera ábyrgð á eða fylgjast með því að einnig séu gefin út starfsleyfi fyrir verslanir með fegrunar- og snyrtiefnum.