Hollustuhættir og mengunarvarnir

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:21:19 (7090)

2002-04-08 12:21:19# 127. lþ. 114.24 fundur 638. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.) frv. 98/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:21]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi snyrtivörurnar falla þær undir eiturefni í lögum þannig að það er eðlilegt að heilbrigðisnefndirnar séu með sams konar eftirlit og það sem snýr að eiturefnum þar sem snyrtivörurnar flokkast sem eiturefni þó að menn upplifi vöruna alla jafna ekki þannig. Reyndar var verið að fjalla um það í útvarpinu í morgun að ýmis eiturefni væru í snyrtivörum.

Varðandi daggæslu í heimahúsum með sex börn eða fleiri eru ekki almennar breytingar á þeim lista sem fylgir með frv., og er hluti af því, nema á mjög sértækum sviðum. Hér er ekki um neina breytingu að ræða, bara er verið að skjóta sterkari lagastoð undir starfsleyfin. Ef færri börn en sex eru í daggæslu er samkvæmt stöðlum einungis um einn starfsmann að ræða. Starfsemin er mun umfangsminni og þess vegna er miðað við þennan fjölda. Þegar börnin eru fleiri en sex er starfsemin víðtækari og menn þurfa að hafa fleiri en einn starfsmann. Hér er ekki um neina breytingu að ræða.