Hollustuhættir og mengunarvarnir

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:37:37 (7093)

2002-04-08 12:37:37# 127. lþ. 114.24 fundur 638. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.) frv. 98/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:37]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna um hvort brýnt sé að koma þessu máli áfram er það auðvitað alltaf matsatriði hvað er brýnt og hvað ekki. Megináherslan í frv. er að skjóta styrkari lagastoð undir starfsleyfin. Ég tel að ekki ætti að vera mikill ágreiningur um það og væri því mjög æskilegt að málið yrði unnið í þinginu til enda.

Hv. þm. kom inn á ýmislegt sem ég ætla að reyna að svara að einhverju leyti í mjög stuttu andsvari. Um öryggisþættina sem hér var spurt um, hvort samráð hefði verið haft við aðila, ber að svara því játandi. Samráð var haft við Vinnueftirlitið. Einnig hefur verið haft samráð við menntmrn. Þær veigalitlu breytingar sem eru í sambandi við þann þátt hafa verið unnar í samráði við hlutaðeigandi aðila.

Hv. þm. ræddi aðeins um uppstokkun á stjórnsýslusviðinu hjá umhvrn., og það er rétt hjá honum að við erum að stokka upp hluta af stjórnsýslunni og skoða aðra þætti. Til tals hefur komið í fyrirspurnatíma á Alþingi að við erum að stofna nýja umhverfisstofnun á grunni nokkurra stofnana, þar á meðal Hollustuverndar ríkisins sem er komið inn á í frv. sem á að fylgjast með slíkum leyfum. En það er einungis rannsóknarþáttur umhverfisstofnunar eða Hollustuverndar, matvælarannsóknaþátturinn, sem fylgir ekki með í því og sem tengist þeim hugsanlegu nýjungum varðandi mætvælastofu sem menn hafa ekki náð að sauma saman enn þá. Sú matvælarannsóknastofa er rekin sér, innan Hollustuverndarinnar, þannig að auðvelt er að taka hana frá. Rekstur hennar er aðskilinn frá eiginlegri starfsemi þannig að mjög einfalt er að taka hana út úr þeirri umhverfisstofnun sem við viljum gjarnan stofna.