Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:45:52 (7097)

2002-04-08 12:45:52# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:45]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um meðhöndlun úrgangs.

Þann 28. september 2001 skipaði ég nefnd til að semja drög að frv. til laga um urðun úrgangs til að uppfylla kröfur tilskipunar ráðs Evrópusambandsins um urðun úrgangs. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, dags. 18. maí 2001, var tilskipunin felld inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Með tilskipuninni er kveðið á um að minnka í áföngum magn þess lífræna heimilisúrgangs sem fer til urðunar á 15--19 árum. Kveðið er á um strangari skilyrði starfsleyfis fyrir urðunarstað og eftirlit með urðunarstað í kjölfar lokunar hans o.fl.

Um meðhöndlun úrgangs hefur hingað til verið fjallað í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þar ber helst að nefna að þann 1. janúar 1990 tók gildi mengunarvarnareglugerð þar sem settar voru fram kröfur um meðhöndlun úrgangs og starfsleyfi móttökustöðva. Ítarlegri kröfur komu fram þegar Ísland gerðist aðili að samningi um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994. Á síðustu árum hefur mikið áunnist í að bæta förgun úrgangs. Mörg sveitarfélög hafa unnið í þessum málaflokki af miklum metnaði og farið í samvinnu sín á milli með stofnun byggðasamlaga.

Ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir eru almenns eðlis. Gilda þau um alla starfsemi sem haft getur í för með sér mengun, auk þeirrar starfsemi þar sem sérstaklega þarf að gæta að hollustuþáttum. Lögin taka því til mjög margvíslegrar starfsemi.

Í tilskipun um urðun úrgangs eru mjög sérhæfð ákvæði um urðunarstaði. Sum ákvæði tilskipunarinnar þykja þó eiga jafnt við um aðrar móttökustöðvar fyrir úrgang. Það er einkum í móttökustöðvum, þ.e. flokkunarmiðstöðvum, sorpbrennslustöðvum og urðunarstöðum sem kerfisbundin meðhöndlun á úrgangi fer fram. Þykir eðlilegt að um slíka kerfisbundna meðhöndlun gildi samræmdar reglur. Var því ákveðið að fara þá leið að gera tillögu um frv. til sérlaga þar sem kveðið yrði á um meðhöndlun úrgangs. Markmið frv. er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og að draga úr þeirri hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra. Jafnframt er það markmið frv. að dregið verði skipulega úr myndun úrgangsefna eins og unnt er, þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu og að sú förgun úrgangs sem nauðsynleg er verði skipulögð þannig að hún nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.

Meðal almennra ákvæða frv. eru ákvæði um stjórnsýslu á sviði úrgangsmála. Eru þau nokkuð nákvæmari en þau hafa verið hingað til. Einnig eru ákvæði um útgáfu starfsleyfis, almenn fyrirmæli um meðhöndlun úrgangs og ákvæði um tryggingu vegna flutnings úrgangs milli landa.

Sérákvæði um urðunarstaði eru í III. kafla frv. og sérákvæði er um sorpbrennslur í IV. kafla frv. Er þar haft til hliðsjónar að einnig hefur verið samþykkt ný Evróputilskipun um sorpbrennslur.

Í ákvæði til bráðabirgða kemur fram að aðlögun starfandi urðunarstaða skal lokið fyrir 16. júlí 2009.

Helstu nýmæli frv. eru ákvæði um ákvörðun gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. 11. gr. frv., ákvæði um sérstaka tryggingu fyrir því að staðið sé við ákvæði starfsleyfis, þar á meðal lokunar- og eftirlitsaðgerðir eftir lokun urðunarstaðar, sbr. 15. gr. frv. og um kerfisbundna vöktun rekstraraðila urðunarstaðar í kjölfar lokunar hans, sbr. 17. gr. frv.

Við undirbúning frv. þessa hefur verið náin samvinna við Samband íslenskra sveitarfélaga. Aflað var lögfræðilegrar álitsgerðar m.a. vegna ákvæða tilskipunar um urðun úrgangs og um vöktun eftir að urðunarstað er lokað með tilliti til þess hvort þau ákvæði fælu í sér að setja þyrfti lagaákvæði um bótaábyrgð rekstraraðila á mengunartjóni. Niðurstaða álitsgerðarinnar var að svo væri ekki, en eðlilegt væri að kveða á um slíka ábyrgð í framhaldi af samþykkt þessara laga. Ég hef því ákveðið að setja á fót nefnd síðar á árinu til að skoða hvernig megi koma fyrir bótaábyrgð vegna mengunartjóns sem gildi um starfsemi þar sem hætta er talin á mengun.

Mikilvægt er vegna samnings um Evrópska efnahagssvæðið að frv. þetta nái fram að ganga sem fyrst þar sem lögleiðingu urðunartilskipunarinnar átti að vera lokið 18. nóvember sl.

Hæstv. forseti. Ég hef þá lokið framsögu um þetta frv. til laga um meðhöndlun úrgangs og leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til umfjöllunar í hæstv. umhvn.