Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:53:28 (7100)

2002-04-08 12:53:28# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:53]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka það að ég vek athygli á því hversu varasamt sé að taka inn bein skilgreiningarhugtök erlendis frá, t.d. á því hvað sé afskekkt, þ.e. að notaðir séu einhverjir staðlar frá Mið-Evrópu um íbúafjölda á ferkílómetra o.s.frv. Í öðru lagi tel ég að gæta eigi varúðar við að nota huglægar flokkanir eins og þarna. Ég tel það raunar ekki rétt og að það eigi að skoða vandlega hvort ekki megi nota þarna einhverja aðra aðferð til að nálgast málið.

Hæstv. ráðherra nefndi starfshóp sem ætti að skoða þessi mál í heild. Nú fylgir þessu öllu mikill kostnaður, mikil umhverfisleg og rekstrarleg ábyrgð og tryggingar, eftirátryggingar. Væri kannski hugsanlegt að á landinu öllu væru bara ein, tvær eða þrjár slíkar stöðvar? Hvað ber landið og hvað berum við sem þjóð margar slíkar sorp- og urðunarstöðvar miðað við þær reglur og kvaðir sem verið er að setja núna um þessa staði og þá starfsemi sem ég ber svo sem virðingu fyrir? En þessu fylgja gríðarlega miklar kvaðir, gríðarlega mikil ábyrgð og gríðarlega mikill kostnaður, og reyndar ábyrgð sem nær áratugi fram í tímann eftir að búið er að loka viðkomandi urðunarstað og sorpstað meira að segja. Ber landið, ber þjóðin mjög marga slíka staði? Mér er spurn: Hefur hæstv. ráðherra nokkuð metið það?