Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:56:52 (7102)

2002-04-08 12:56:52# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ef það var ástæða til að gera athugasemd við að málið sem við ræddum á undan þessu væri seint fram komið þá er ástæða til að hafa þá athugasemd uppi núna því þetta mál er auðvitað miklu stærra í sniðum en hitt málið sem við ræddum áðan. Ég tel að málið sé að mörgu leyti bráðnauðsynlegt og ætla ekkert að setja út á hvernig það er búið að öðru leyti en því að mig langar til þess að spyrja dálítið nánar um tvö eða þrjú atriði.

Mér finnst vera svolítið óljóst hvernig menn hugsa innheimtu á gjöldum fyrir þessa hluti. Í 11. gr. frv. um gjald fyrir meðhöndlun úrgangs stendur, með leyfi forseta:

,,Gjaldið skal nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins, ...``

Þar er og sagt að:

,,Rekstraraðili förgunarstaðar, hvort sem um er að ræða sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðila, skal innheimta gjald ...``

Hér er orðið ,,skal`` notað. Það er ekki bara sagt að viðkomandi aðilar skuli innheimta gjald heldur að þeir skuli innheimta gjald og að gjaldið skuli nægja fyrir öllum kostnaðinum. Þarna eru fyrirmæli frá löggjafanum um að ekki verði notaðir aðrir peningar til þess að reka þessa starfsemi heldur skuli þeir innheimtast með þessum hætti. En í næstu málsgrein á eftir segir síðan:

,,Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs.``

Mér finnst þetta svolítið óljóst. Þarna er allt í einu farið að tala um að sveitarfélögunum sé þetta heimilt. Á maður að skilja þetta þannig að sveitarfélögunum sé þá heimilt að velja sér á hvaða stigi meðhöndlunar úrgangs þau innheimta gjöldin, en að þau skuli innheimta gjöld sem duga fyrir öllum kostnaðinum? Ef það er meiningni með þessu þá hef ég skilið það rétt. En þá er fortakslaust ætlast til þess að sveitarfélögin noti ekki aðra peninga til þess að sjá fyrir þessum hlutum en þá sem þeir innheimta með sérstökum gjöldum til þess.

[13:00]

Síðan er talað um tryggingu aðila sem taka að sér að urða. Í frv. er einhvers staðar óljóst orðalag um að ,,tryggja eins og mögulegt er`` eða eitthvað svoleiðis. Þessi hugsun er auðvitað mjög góð, að þeir sem taka að sér að urða úrgang eigi með starfsemi sinni fullkomlega að bera ábyrgð á þessari starfsemi allt til enda, þ.e. að það sé þá tryggt að mengun vegna þessarar urðunar verði ekki til baga síðar og að til séu peningar til að standa straum af kostnaðinum. Það getur verið flókið að tryggja að þetta standist.

Ég verð að segja eins og er að ég tel fulla ástæðu til að halda að starfsemi sem á að greiða í einhvers konar tryggingasjóð á meðan hún stendur yfir geti lent í rekstrarerfiðleikum og vandamálum. Það er viðbúið að mjög erfitt verði að tryggja hana nema að til komi einhverjar aðgerðir sem endurtryggi hana með einhverjum hætti, t.d. ef allir förgunaraðilar í landinu stæðu saman að einhvers konar tryggingasjóði eða aðgerðum sem tryggðu að menn fengju ekki upp vandamál á einstökum urðunarsvæðum vegna þessa. Ef sveitarfélög bjóða t.d. út urðun, viðkomandi aðili lendir í einhverjum vandræðum og það reynir á þessa hluti þurfa að vera ákvæði, eða ég spyr: Hefur verið skoðað að einhver ákvæði um tryggingu geti komið til sem þessir aðilar verða þá að taka þátt í frá upphafi?

Ég ímynda mér að um býsna háar fjárhæðir gæti orðið að ræða vegna skaða af völdum svona urðunar ef eiturefni verða urðuð, mistök eiga sér stað eða viðkomandi aðili brýtur af sér með urðun á efnum sem ekki átti að urða þar. Síðar gætu komið upp einhver vandamál vegna hreinsunar eða endurvinnslu af slíkum urðunarsvæðum og til slíks gæti þurft að kosta miklum peningum. Þá er brýnt að til staðar sé einhver trygging eða sjóður sem hægt sé að grípa til.

Síðan erum við að tala um vöktun langt fram í tímann. Mér finnst að þessi atriði hefðu þurft að vera svolítið skýrari, a.m.k. sýnist mér í fljótu bragði að það sé ekki alveg á skýru að fyrir því sé séð að menn lendi ekki í vandamálum eins og þeim sem ég er að lýsa hér.

En það er ekki annað. Ég mun starfa að þessu í nefndinni og ég hlakka til þess. Ég held að þetta sé mál sem full ástæða sé til að taka til við að vinna sem allra fyrst. Vonandi verður hægt að afgreiða það en mér finnst það vera býsna seint fram komið til þess.