Ályktun um sjálfstæði Palestínu

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:05:54 (7107)

2002-04-08 15:05:54# 127. lþ. 114.1 fundur 480#B ályktun um sjálfstæði Palestínu# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Það er mjög alvarlegt og hefur orðið tilefni til umræðu á Alþingi skipti eftir skipti og ekki að ástæðulausu. Við vitum öll að ef finna á viðunandi lausn á þessu máli þurfa margir að koma þar til: Evrópusambandið, Arabalöndin, Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar ekki síst. Þannig mænir gjörvöll heimsbyggðin á þetta ástand og við hljótum að vonast eftir því að næstu daga takist vopnahléssamningar sem verið er að vinna að.

Oft hefur verið rætt um þetta mál hér á hv. Alþingi. Mér er kunnugt um að till. til þál. liggur fyrir þinginu. Ég hef rætt málið við hv. utanrmn. Þar hefur málið verið rætt. Það er að sjálfsögðu í höndum utanrmn. að afgreiða þau mál sem þar liggja fyrir. Nú fer í hönd nefndavika. Ég vænti þess að hv. þingmenn stefni að því að afgreiða þetta mál hið fyrsta. Ég hef ekkert nema gott um það að segja og tel mikilvægt að ályktun komi fram á Alþingi og þingmenn reyni að ná saman um texta hennar. Ályktanir Sameinuðu þjóðanna, öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hljóta að vera aðalgrundvöllurinn fyrir slíkri ályktun. Ég veit ekki betur en fullur áhugi sé á því hjá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi að ná saman um slíka afgreiðslu.