Frumvarp um Þjóðhagsstofnun

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:13:30 (7112)

2002-04-08 15:13:30# 127. lþ. 114.1 fundur 481#B Frumvarp um Þjóðhagsstofnun# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er afskaplega mikilvægt að málið verði afgreitt á hv. Alþingi. Ég tel að það sé tiltölulega einfalt. Þjóðhagsstofnun er í ákveðinni upplausn í dag. Starfsfólk stofnunarinnar hefur margt sagt upp og koma þarf málum fyrir þannig að hægt verði að halda áfram að vinna að þeim málum með eðlilegum hætti.

Gert er ráð fyrir að ríkisstjórn á hverjum tíma setji fram forsendur sínar og spár um þróun efnahagsmála beint á fjárlagagerðinni. Hins vegar er gert ráð fyrir að Seðlabankinn meti stöðuna á eigin forsendum á sjálfstæðan hátt. Það liggur alveg ljóst fyrir að ekki þýðir fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma að setja fram bara einhverja spá. Hún verður að sjálfsögðu að vera faglega unnin og öllum opin og Seðlabankinn mun meta slíka spá á eigin forsendum. Ég tel því að verið sé að styrkja áætlunargerðina í þjóðfélaginu, gera hana sjálfstæðari og með því að bæði fjmrn. og Seðlabankinn vinni sjálfstætt að þessum málum ætti það að verða enn trúverðugra gagnvart Alþingi en nokkru sinni fyrr.