Frumvarp um Þjóðhagsstofnun

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:14:49 (7113)

2002-04-08 15:14:49# 127. lþ. 114.1 fundur 481#B Frumvarp um Þjóðhagsstofnun# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Ég heyri að hæstv. ráðherra ætlast til að þetta mál verði afgreitt. Þetta er stórt og mikið mál sem þarf að skoða mjög ítarlega. Ég held að mörg verkefni sem stofnunin hefur haft verði í hreinu uppnámi eftir þá breytingu. Þjóðhagsstofnun hefur haft ýmis verkefni á sinni könnu, t.d. reiknilíkön tengd sjávarútvegs- og stóriðjumálum, almannatrygginga- og skattamálum. Hvar á að koma slíkum verkefnum fyrir?

Ég nefni líka, ef á að fara að styðja hagdeild ASÍ: Hvað með hagdeildir vinnuveitenda, BSRB og fleiri aðila? Fá allar þær hagdeildir einhvern stuðning af hálfu ríkisvaldsins ef fara á þessa leið? Ég held að þessi leið sé óskynsamleg í alla staði og ég lýsi fullkominni andstöðu við hana.

Herra forseti. Það er ekki boðlegt, ég segi það, að ætlast til að þingið afgreiði þetta mál á fimm eða sex vinnudögum sem eftir eru af þessu þingi.