Þátttaka seðlabankastjóra í álversviðræðum

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:18:37 (7116)

2002-04-08 15:18:37# 127. lþ. 114.1 fundur 482#B Þátttaka seðlabankastjóra í álversviðræðum# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Eins og ég hef látið koma fram opinberlega oftar en einu sinni tel ég það hafa verið mikinn feng að fá seðlabankastjóra, Finn Ingólfsson, til að leiða það starf sem nú hefst í könnunarviðræðum við álfyrirtæki í heiminum, bæði vegna þess að hann hefur þessa stöðu seðlabankastjóra, sem gefur verkefninu ákveðna vigt, og ekki síður fyrir að hann er fyrrv. iðn.- og viðskrh. og þekkir málaflokkinn mjög vel. Í þriðja lagi er þarna um ákaflega duglegan mann að ræða sem tekur þetta verkefni eflaust mjög alvarlega.

Það að reyna að gera það tortryggilegt af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs kemur mér svo sem ekki á óvart. Það er bara enn ein leiðin til að reyna að koma í veg fyrir að okkur takist það ætlunarverk okkar, ríkisstjórnarinnar, sem hefur vaxandi fylgi meðal þjóðarinnar, þ.e. að virkja við Kárahnjúka og að byggja stórt álver í Reyðarfirði sem yrði mörg hundruð manna vinnustaður.

Ásamt seðlabankastjóra í þessari nefnd er annar fyrrv. ráðherra, Friðrik Sophusson, sem bæði hefur gegnt starfi iðnrh. og fjmrh. Ég held þannig að ekkert fari á milli mála að þarna sé vel skipað og þriðji maðurinn er skrifstofustjóri í iðnrn.