Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 16:18:09 (7148)

2002-04-08 16:18:09# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um meðhöndlun úrgangs sem hæstv. umhvrh. mælti fyrir fyrr í dag. Þetta er í sjálfu sér stórmál og fyllilega er tímabært að leggja fram heildstæða löggjöf sem tekur á því. Í markmiðsgrein laganna stendur, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, svo og að draga úr hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra.

Jafnframt er það markmið laganna að dregið verði skipulega úr myndun úrgangsefna eftir því sem unnt er. Þeim úrgangi sem myndast verði komið í endurnotkun og endurnýtingu og nauðsynlegri förgun úrgangs háttað þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.``

Herra forseti. Þarna eru mjög metnaðarfull markmið sett. Síðan er allítarlega í einstökum lagagreinum farið yfir hvernig skuli fara með úrgang, hvernig sorpeyðingu skuli háttað, hvernig skuli hátta til með urðunarstaði og urðun á sorpi, flokkun sorps og einnig hvernig fara skuli með gjald, gjaldtöku og kostnað vegna þessa verkefnis. Mig langar aðeins til að koma frekar inn á þau atriði í ræðu minni. Í andsvari við hæstv. ráðherra fyrr í dag um skilgreiningu og flokkun í frv. á byggð eftir því hversu þéttbýl hún er, minntist ég á þá flokkun sem þar er tilgreind, þ.e. skilgreininguna á því hvað sé afskekkt byggð. Í frv. er hún skilgreind. Ég varaði eindregið við því, herra forseti, að setja í einstök frv. til laga huglæg atriði eins og t.d. flokkun byggða eða flokkun fólks.

Í þessu lagafrv. eru margar aðrar skilgreiningar á hugtökum sem ekki eru þó kannski eins huglægar og þessi skilgreining á afskekktri byggð sem ég er reyndar á móti þarna. Ég lýsti því í morgun að ég væri á móti nálgun á skilgreiningu afskekktrar byggðar eins og þar er. Þar er miðað við erlenda staðla og erlendar skilgreiningar. En byggð og byggðamunstur er allt annað hér á Íslandi en í Mið-Evrópu og skilgreiningin á byggðum lýtur því allt öðrum lögmálum. Ég hef borið fram ósk um að bæði hæstv. ráðherra og hv. umhvn. skoði sérstaklega notkun þessa hugtaks, afskekkt byggð.

Varðandi aðrar skilgreiningar sem þarna eru tíundaðar þá vil ég ítreka þá skoðun mína og það sem ég hef áður sagt hér um nýyrðasmíð og skilgreiningar á hugtökum í lagafrv., að það er mín skoðun að senda eigi slíka hugtakasmíð til t.d. Íslenskrar málnefndar. Það á ekki að líða það, þrátt fyrir góðan vilja og sjálfsagt hina bestu þekkingu, að einstök ráðuneyti geti bara með huglægum hætti vakið upp og búið til nýyrði eða nýjar skilgreiningar á þekktum hugtökum. Vonandi er raunin ekki oft sú að til vandræða sé. En við höfum t.d. Íslenska málefnd eða aðra slíka aðila til að starfa með ríkinu eða einstökum ráðuneytum. Ég tel að það eigi að vera skilyrðislaus regla að áður en ráðuneyti leggja svona lagað fram, þ.e. langan lista af hugtökum og skýringum, þá eigi það að fara til slíkrar nefndar þannig að til komi þriðji aðili sem fari yfir það hvort viðkomandi málnotkun og viðkomandi skýringar á skilgreiningum séu í takt við íslenska málhefð og sinni þá líka nýyrðasmíð ef um það er að ræða.

Herra forseti. Þetta vil ég ítreka og óska eftir því að hæstv. forseti beri þessi orð mín áfram inn í forsn. um að þessi háttur verði hafður á. Ég minnist þess --- ég held reyndar að svo sé meira að segja --- að á fjárlögum ríkisins séu fjárveitingar til þess arna, ætlaðar til málnefndar og til sérstaks starfs við nýyrðasmíð og skilgreiningar á hugtökum. Ég skora á hæstv. forseta að taka þetta til umfjöllunar þannig að forsn. beini því til ráðuneyta að hafa þennan háttinn á svo við séum ekki stöðugt að fá hér inn á borð frv. með einkaskilgreiningum á kannski mörgum hugtökum sem eiga sér aðra og ákveðna hefð í íslensku máli. Ég vil að þetta verði síðan lögskýringargagn. Ef mál koma upp þá er þetta lögskýringargagn og þá er kannski með lögum búið að breyta merkingu eða láta orð og hugtök fá aðra merkingu en þau hafa áður haft eða breyta merkingu ákveðinna hugtaka. Nóg um það.

Ég vil að öðru leyti gera að umtalsefni kostnað og skipulagshlið þessara mála. Það er alveg ljóst að sorp, sorpurðun og meðferð úrgangs er eitt stærsta mál fyrir okkur til að taka á. Stöðugt koma fram ný og ákveðnari viðhorf um það hvernig með úrgang skuli fara, endurnýtingu endurnýtanlegs úrgangs og flokkun sorps. Lífrænt sorp skal ekki urða heldur á að endurnýta það til þess að styrkja betur hina lífrænu endurnýjanlegu orku landsins. Flokkun þess og allt sem að henni lýtur er því afar mikilvægt mál.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að hve miklu leyti þetta frv. hefur t.d. verið unnið í samráði við umhverfissamtök á þessu sviði og aðra fagaðila sem hafa um þetta meiningar og á því skoðanir. Sömuleiðis er ljóst að þetta er líka skipulagsmál og varðar fjármál gríðarlega. Þetta er eitt þeirra verkefna sem sveitarfélögunum hefur verið falið að bera ábyrgð á hverju fyrir sig. Mig langar til að heyra hjá hæstv. ráðherra hvaða undirbúningsvinna hafi farið fram milli hæstv. umhvrn. og t.d. Samtaka sveitarfélaga við undirbúning og framsetningu þessa máls. Þetta er í sjálfu sér stórmál sem við erum þarna að fjalla um og ábyrgðinni og framkvæmdinni er að langmestu leyti varpað á sveitarfélögin. Þrátt fyrir að umhvrh. fari með yfirstjórn málanna samkvæmt lögunum, er engu að síður framkvæmdaáætlunin og framkvæmdin á ábyrgð sveitarfélaganna. Við þurfum að gjalda varhug við að samþykkja hér íþyngjandi lög á margan hátt, hvað kostnað varðar, fyrirhöfn og ábyrgð án þess að það sé gert í fullu og nánu samráði við þá aðila sem eiga að framkvæma þau.

Ég vil líka aðeins gera að umtalsefni 11. gr. þar sem fjallað er um gjald fyrir meðhöndlun úrgangs. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Rekstraraðili förgunarstaðar, hvort sem um er að ræða sveitarfélag, byggðasamlag eða einkaaðila, skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs. Gjaldið skal nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins, þ.m.t. uppsetningu og rekstur viðkomandi förgunarstaðar. Þar sem úrgangur er urðaður skal gjaldið einnig að svo miklu leyti sem unnt er standa undir kostnaði ...``

Herra forseti. Hér er tekið dálítið djúpt í árinni því að í fyrsta lagi er förgunin bara einn liður í meðferð úrgangs. Við höfum lagt áherslu á að flokka úrgang, þ.e. að fram fari ítarleg flokkun þannig að ekki væri verið að urða eða brenna úrgang sem ætti að meðhöndla eða nýta með öðrum hætti. Mér finnst því að huga ætti nánar að gjaldtöku eingöngu fyrir förgun úrgangsins. Hvað með eigendur umbúðanna? Við vorum líka að ræða förgun á umbúðum og umbúðagjald. Hvernig er innheimta gjalds af þessum úrgangi hugsuð? Á bara neytandinn sem síðastur skilar af sér þessum úrgangi að bera gjaldið? En hvað með þá sem framleiða umbúðirnar og bera ábyrgð á þeim o.s.frv.? Við höfum áður verið með umbúðagjald. Mér finnst þessi gjaldtaka mjög óljós. Hana þarf að skýra nánar.

[16:30]

Í 11. gr. segir t.d., með leyfi forseta:

,,Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs.``

Hvað felur það í sér, öll meðhöndlun úrgangs? Hæstv. ráðherra var með vissa skýringu á því áðan en þetta er svo margbreytilegur úrgangur sem við erum með og öll meðhöndlun hans. Hver er ábyrgð framleiðendanna á úrganginum, t.d. á öllum umbúðunum? Ber aðeins neytandinn sem skilar því á síðasta stigi, ábyrgð á förgunarkostnaði eða meðhöndlun úrgangsins o.s.frv.? Ég vildi vekja athygli á að við fyrstu sýn finnst mér frv. lítið unnið hvað þetta varðar en það má lengi bæta.

Þá komum við að urðunarstöðunum sem fjallað er sérstaklega um og auknar kröfur sem gera á til urðunarstaða. Mér finnst alveg hárrétt að auka þær bæði hvað varðar umhverfisleg áhrif, hvernig jarðvegurinn er og annað því um líkt. Einnig er fjallað um hvað á að fara fram á urðunarstað og hvað má urða. Mér finnst þó að það mætti koma skýrar fram hvað er í raun heimilt að urða.

Það er mikill kostnaður við koma upp urðunarstöðum og auk þess eru líka auknar kröfur til vöktunar og eftirlits, meira að segja löngu eftir að hætt yrði að nota viðkomandi urðunarstað. Kostnaðurinn sem hér er skotið á er því fullkomlega út í bláinn en sá kostnaður mundi áfram hvíla á sveitarfélögunum. Þannig yrði erfitt að innheimta einhvern ótiltekinn vöktunarkostnað til 30--40 ára eða lengur, meira að segja eftir að urðun er lokið og hætt. Og þá hvílir náttúrlega sá kostnaður á viðkomandi sveitarfélögum. Með þessum lögum í heild sinni er því verið að leggja allítarlega kostnaðarábyrgð og ábyrgð af framkvæmd og rekstri á sveitarfélögin, þ.e. Alþingi leggur aukna ábyrgð á þriðja aðila samkvæmt þessu frv.

Mér finnst koma til greina að skipulega verði farið í gang með það að skoða hver væri lágmarksfjöldi urðunarstaða í landinu og koma þannig í veg fyrir að einstök sveitarfélög lendi í basli við að koma sér upp urðunarstöðum sem yrðu síðan þungur baggi í rekstri þeirra og auk þess áhætta gagnvart umhverfinu.

Á þessu vildi ég vekja athygli, herra forseti. Sömuleiðis er umsögn fjmrn. um frv. til laga um meðhöndlun úrgangs jafnmikið út í loftið. Í rauninni er ekkert vitað hvaða kostnað þetta mun hafa í för með sér gagnvart sveitarfélögunum. Það er fráleitt að ætla sér að skilyrða í lögum að hægt sé að krefjast þess að neytendur, eða þeir sem skila af sér úrganginum á lokastigi, beri af þessu allan kostnað. Það er fráleitt að skilyrða það við þá og mun aldrei ganga upp. Þess vegna tel ég, þegar fjmrn. áætlar kostnað af hálfu ríkisins og sveitarfélaganna, að það sé meira eða minna út í loftið eða ekki miklar heimildir eða öruggar forsendur fyrir þeirri kostnaðaráætlun.

Ég legg áherslu á það, herra forseti, að þetta mál er varhugavert. Við þurfum að fara gætilega, þó að um góð mál sé að ræða, að samþykkja ábyrgð og fjárhagslegar álögur á annan aðila, t.d. sveitarfélögin í þessu tilviki ellegar þá að skilyrða að notkunargjöld standi undir rekstri eins og hér er gert ráð fyrir.