Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 16:35:19 (7149)

2002-04-08 16:35:19# 127. lþ. 114.25 fundur 651. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér hefur svo mörgum spurningum verið beint til mín að ég treysti mér ekki til að svara þeim í andsvari. Ég kýs heldur að svara þeim í stuttri ræðu.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á að það hlyti að hafa verið haft samráð við hagsmunaaðila varðandi þetta frv. Það er alveg rétt. Það kemur fram í athugasemdum við lagafrv. að við vorum í samráði við hagsmunaaðila á þessu sviði. Frv. samdi nefnd sem var undir forustu umhvrn. en þar var einnig aðili frá mengunarvarnasviði Hollustuverndar ríkisins. Þar var einnig sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga enda tengist þetta mál auðvitað sveitarfélögunum afar mikið þar sem sveitarfélögin bera ábyrgð á því að urðunarmál sveitarfélaga séu í lagi.

Með nefndinni vann lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umhverfisverkfræðingur frá Hollustuvernd ríkisins. Nefndin hafði einnig samráð við Árna Pál Árnason lögmann, Sigmar Ármannsson hjá Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Ögmund Einarsson, forstjóra Sorpu. Nefndin óskaði einnig skriflegra upplýsinga frá samtökum banka og verðbréfafyrirtækja og hjá Sambandi íslenskra tryggingafélaga varðandi starfsleyfistryggingar. Víðtækt samráð var því haft varðandi samningu þessa frv. enda má segja að það nái til ýmissa þátta á þessu sviði og sé fremur sérhæft.

Í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar kom fram að það væri verið að kasta einhvers konar ábyrgð á sveitarfélögin með frv. en þau bera í dag ábyrgð á urðunarmálum, þ.e. sjá um sorpmál hjá íbúum og atvinnufyrirtækjum sínum. Í sjálfu sér er ekkert verið að breyta því. Hins vegar er verið að gera meiri kröfur um hvernig sveitarfélögum beri að standa að þessum málum til að endurspegla m.a. tilskipanir frá Evrópusambandinu.

Sveitarfélögin hafa að mínu mati sýnt mikinn metnað í þessum málum. Fyrir ekki mjög löngu síðan voru hér fjölmargar opnar sorpbrennslur þar sem sorpi var brennt við lélegar aðstæður. Nú er búið að loka þeim og koma málum í viðunandi horf. Menn hafa einnig verið að fikra sig áfram varðandi sameiningu á urðunarstöðum og það er vel. Ég býst við að menn muni í framhaldinu, m.a. eftir að þetta frv. verður samþykkt, fara í að sameina enn fleiri urðunarstaði, enda er verið að setja fram kröfur sem væri skynsamlegt, út frá hagræðingu, að menn sameinuðust um að bera þungann af.

Ég get nefnt dæmi, virðulegur forseti, um hvar sveitarfélögin hafa staðið sig vel. Eitt dæmið er Reykjavíkurborg sem hefur staðið vel að þessum málum og er núna að taka upp kerfi þar sem menn borga eftir því hve miklu af rusli þeir henda. Menn eru þannig að nálgast hugmyndafræðina sem felst í mengunarbótareglunni, þ.e. að mengarinn borgar. Ég get líka nefnt sem dæmi að í Skaftárhreppi, sem er miklu minna sveitarfélag en Reykjavíkurborg, eru 170 heimili. Nær öll heimilin á Kirkjubæjarklaustri flokka lífrænan heimilisúrgang. Þar eru heimili, bæði á Klaustri og í sveitinni, með heimajarðgerð og sveitarfélagið rekur jarðgerðartromlu. Sveitarfélagið sjálft lagði til flokkunarfötur í eldhús til allra heimila sem vildu og niðurgreiddu jarðgerðarkassa fyrir þá sem vildu fara í heimajarðgerð. Aukakostnaður er sáralítill að þeirra mati og talið er að til langs tíma verði sparnaður af þessari aðgerð. Sveitarfélögin sýna þannig metnað og ég ber fullt traust til þeirra og þess að þau geti líka staðið við skilyrðin í þessu frv.

Varðandi 11. gr. sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á er rétt að þar kemur fram að taka skuli gjald fyrir förgun. Eins og við ræddum fyrr í dag, þá lýtur þessi skylda að förguninni. Síðan kemur fram í sömu grein að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Meðhöndlun úrgangs felur í sér förgun en miklu meira en það. Áætlað er að förgunin sé u.þ.b. 30% af heildarkostnaði við meðhöndlun úrgangs og í dag, samkvæmt mínum upplýsingum, eru sveitarfélögin yfirleitt ekki að innheimta raunkostnað fyrir förgun af íbúunum. Sorpa innheimtir raunkostnað af atvinnulífinu en almennt er ekki verið að innheimta raunkostnað af íbúunum. Innheimtan er allt frá 0% og upp í 18% miðað við tölur sem menn hafa skoðað. Það er því alveg ljóst að með því að samþykkja þetta frv. mun förgunarkostnaðurinn hækka, sveitarfélögin munu innheimta meira, þ.e. um 30% af kostnaðinum við meðhöndlun úrgangs til að geta staðið undir því að innheimta raunkostnað.

Hér er að mínu mati ekki um óeðlilegar skyldur að ræð eins og mér fannst hv. þm. gefa í skyn. Hann taldi að þetta yrði erfitt fyrir sveitarfélögin. Ég held að það sé eðlilegt að sá sem mengar borgi fyrir það og að við fikrum okkur áfram í þeirri hugmyndafræði. Þetta er auðvitað hugmyndafræði sem menn hafa þekkt hér og hefur rutt sér meira til rúms með sjálfbærri þróun. Víða annars staðar hafa menn gengið lengra en við, t.d. í Noregi. Þar innheimta sveitarfélögin raunkostnað fyrir allri meðhöndlun á úrgangi. En við göngum ekki svo langt hér. Við heimilum sveitarfélögunum að gera það en við skyldum þau ekki til þess. Við skyldum þau einungis til að innheimta raunkostnað fyrir förgun.

Hv. þm. kom inn á úrvinnslugjald sem hefur verið rætt hér áður. Hér var flutt frv. um svokallað úrvinnslugjald þar sem hugmyndin var að þegar menn flytja ýmsar vörur í umbúðum hingað til lands yrði tekið af því gjald í tolli, þ.e. af þeim umbúðum, einhverja ákveðna auratölu eða krónutölu eftir því hvað það er dýrt. Þar var gert ráð fyrir því að menn reiknuðu út kostnaðinn við að flytja viðkomandi umbúðir og koma þeim í lóg, þ.e. annaðhvort í endurvinnslu, endurnýtingu eða förgun. Það mál er ekki frágengið en nefnd er að störfum og skoðar m.a. hvernig við getum framfylgt svokölluðu úrvinnslugjaldi.

Ég býst ekki við að við munum sjá niðurstöðuna af því máli fyrr en í haust og þá verði flutt frv. um úrvinnslugjald eða framkvæmd á úrvinnslugjaldi á haustþingi. Við viljum helst setja þetta gjald í miðlæga innheimtu í tolli þannig að það geti enginn komið sér undan því að greiða þetta gjald og fallið hóp ,,free riders``, eins og það er kallað erlendis, þ.e. þeirra sem koma sér undan því að greiða þetta gjald. Ég held að hér sé um mikið framfaramál að ræða og það mál er ekki innifalið í þessu frv. Við erum einungis að fjalla um skyldur gagnvart förguninni og heimila sveitarfélögunum að taka gjald fyrir alla meðhöndlun. Menn verða síðan að sjá í haust hvernig frv. kemur út gagnvart úrvinnslugjaldinu.

Varðandi vöktunina, sem er líka innifalin í þessu frv. --- menn eiga að vakta urðunarstað í 30 ár eftir að honum er lokað til að fylgjast með sigvatni og efnum sem koma frá urðunarstöðum --- er eðlilegt að sú skylda hvíli á sveitarfélögunum sem reka urðunarstaðina. Við erum þar af leiðandi að setja auknar kröfur á sveitarfélögin. Það kostar, það er alveg rétt, eins og fram kemur í kostnaðarmati fjmrn. sem fylgir frv. Sveitarfélögin munu hins vegar innheimta gjald fyrir þetta þannig að þau eiga ekki að bera mjög miklar fjárhagslegar byrðar af þessu. Sveitarfélögin geta líka, varðandi tryggingarnar sem þau þurfa að hafa fyrir urðunarstöðunum, fjárhagslegar tryggingar svo að það sé alveg tryggt að menn geti farið út í vöktun eftir að urðunarstað er lokað, gefið tryggingar sem byggja á þeirra eigin fé. Þessu er ágætlega lýst í greinargerð með frv.

Ég býst við að við náum að koma þessu máli í framkvæmd með skikkanlegum hætti verði þetta frv. samþykkt en ég geri mér grein fyrir því að við sjáum ekki í dag nákvæmlega á hverju kostnaðurinn hleypur, hvorki upp á krónur né milljónir króna. Það er það flókið að finna út úr því að við munum ekki geta það fyrir fram heldur verðum við að sjá hvernig málin þróast hjá sveitarfélögunum. Það skiptir verulegu máli, hvernig þau sjálf standa að því að hvetja sína íbúa til að flokka og koma úrganginum í þær rásir sem upp á er boðið, fyrir árangurinn. Kirkjubæjarklaustur, Skaftárhreppur er kominn langt í þessu. Önnur sveitarfélög eru komin styttra þannig að þetta virkar líka sem hvati á sveitarfélögin til að standa sig.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi. Ég geri mér grein fyrir því hve stuttur tími er til stefnu en við hefðum átt að uppfylla þær skuldbindingar sem frv. fylgja í nóvember á síðasta ári. Við erum heldur seint á ferð með þetta. En þannig er þetta í stjórnsýslu okkar, sem er ekki mjög umfangsmikil og fjölmenn, að við erum ekki komin lengra en svo að við erum að flytja þetta mál núna, frekar seint á þessu þingi. En þetta er framfaramál og ég býst við að pólitísk samstaða sé um það enda er málið mjög jákvætt fyrir umhverfið.