Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:02:50 (7157)

2002-04-08 17:02:50# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:02]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ágæt ábending hjá hv. þm. Ég er sammála henni um að vissulega beri að stuðla að einkavæðingu á sem flestum sviðum í þjóðfélaginu. Hins vegar er þannig með þessa stofnun eins og ég skýrði frá í framsögu minni að nú á ríkið öll hlutabréf í fyrirtækinu. Þetta er ekki fyrirtæki í samkeppnisrekstri heldur gegnir það mjög hefðbundnu hlutverki í þjónustu, t.d. með skráningu á bifreiðum. Ég tel rétt, eftir að hafa farið yfir þennan málaflokk varðandi umferðaröryggismál sem hefur verið að mestu skipt á milli þessara tveggja stofnana, þ.e. Skráningarstofunnar og Umferðarráðs, að rétt sé að sameina þær í eina. Ég tel að með því munum við fá fram mun meiri árangur í umferðaröryggismálum. Þar munum við fá saman fleiri sérfræðinga til að vinna að málum og annað því um líkt. Ég held því að það sé tvímælalaus kostur að þetta mál nái fram að ganga.

Hins vegar verður að stofna undirbúningsnefnd sem verður að fara nánar yfir öll þau verkefni sem hér er um að ræða og athuga hvernig þeim verður best komið fyrir. Það eru auðvitað ýmis verkefni sem Skráningarstofan fer með eins og tölvumiðstöð dómsmrn. sem þarf að athuga sérstaklega. En ég treysti því að hv. allshn. muni skoða þetta mál vel og fá viðhlítandi svör.